Á miðvikudag tók Geir H. Haarde við embætti fjármálaráðherra og var talað við hann á Rás 2 að loknum ríkisráðsfundi. Geir var þar spurður hvort fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi sameiningartákn þjóðarinnar, Ólafur Ragnar Grímsson að nafni, hefði gefið hinum nýja fjármálaráðherra einhver góð ráð við það tækifæri. Var á Geir að skilja að Ólafur Ragnar lumaði á ýmsum ráðum fyrir nýja fjármálaráðherra en því miður sagði hann ekkert um það hver þau hefðu verið. Hér kemur margt til greina og ýmislegt sem Ólafur Ragnar Grímsson er eflaust hafsjór fróðleiks um.
Hann hefur til dæmis getað ráðlagt Geir hvernig heppilegast er að standa að samningum við opinbera starfsmenn. Ólafur hefur eflaust bent Geir á að tilvalið er að semja um miklar kjarabætur fyrir starfsmenn sína og tala opinberlega um samninginn sem mikla pólitíska og félagslega upplifun. En ef starfsmennirnir fara að óska eftir að samningurinn verði efndur að öðru leyti en því, nú þá er einfalt að segja „allt í plati“ og taka orð sín aftur með bráðabirgðalögum. Ólafur hefur líklega frætt Geir á því hversu mikilvægt að fjármálaráðherra geti brugðið við með skjótum og óvæntum hætti frá degi til dags. Þannig sé einn daginn rétt að senda lögregluna til að innsigla fyrirtæki hér og þar, og næsta dag skynsamlegt að taka verðlausan gagnagrunn upp í stórfelld vanskil á vörslusköttum. Þá hefur Ólafur eflaust hvatt Geir til að létta sér störfin með því að ráða sér pólitíska aðstoðarmenn langt umfram heimildir, sem og að taka stjórnarandstöðuna engum vettlingatökum. Gagnrýni hennar stafi eingöngu af skítlegu eðli.
Ólafur hefur einnig væntanlega minnt Geir á mikilvægi þess að Íslendingum sé kunnugt um að fjármálaráðherra njóti alþjóðlegrar viðurkenningar og því hvatt hann til að þefa uppi erlenda harðstjóra og setjast til tedrykkju í höllum þeirra. Nicolai Cheaucescu er því miður allur en Saddam Hussein gæti eflaust komið að sama gagni. Ekki er heldur ólíklegt að Ólafur Ragnar hafi frætt Geir Haarde á því hvernig menn eiga að halda á spilunum til að vera árum saman verst þokkaði stjórnmálamaður landsins en verða allt í einu að margra áliti, þó alls ekki meiri hluta þjóðarinnar, tilvalinn til að gegna embætti forseta Íslands. Kemur sú þekking Geir þá kannski að góðum notum ef hann gefur kost á sér til embættis forseta Íslands þegar Ólafur Ragnar Grísson lætur af því starfi eftir tvö ár.
Að lokum hefur Ólafur líklega hvatt Geir til að láta ekki æðrast á erfiðum stundum og hvika hvergi. Væntanlega hefur hann sagt honum að trúa svona einna helst á manninn. Fyrir mann í forsetakjöri séu það kannski heldur einhæf trúarbrögð en komi til þess, þá skuli Geir trúa á þann guð sem sérstaklega amma hans kenndi honum að trúa á.