Föstudagur 17. apríl 1998

107. tbl. 2. árg.

Esra Pétursson sálpælir og hinn svonefndi Ingólfur Margeirsson mættu fyrir héraðsdóm nýlega vegna bókar sem þeir gáfu út fyrir jólin. „Ingólfur“ hefur þegar haldið því fram að það sé spurning um málfrelsi að þeir félagar verði sýknaðir af ákærum. En mál þetta snýst alls ekki um málfrelsi heldur hvort Esra hafi með aðstoð „Ingólfs“  rofið trúnað við sjúkling sem hann annaðist. Samningar skulu standa.

Þetta leiðir hugann að máli sem talsvert hefur verið rætt  að undanförnu en það er nýting á upplýsingum um heilsufar landsmanna sem eru á tvist og bast í heilbrigðiskerfinu. Flestir hafa gengið að því sem vísu að þær upplýsingar sem koma fram við heimsóknir þeirra til lækna séu trúnaðarmál. Það má einnig gera ráð fyrr að langflestir vilji leggja vísindunum lið með því að veita aðgang að upplýsingum um heilsufar sitt. En er ekki rétt að fólk fái einhverju ráðið um það sjálft? Ef til vill eru einhverjir sem kæra sig ekki um að upplýsingar um þá séu nýttar til rannsókna. Ekki er gott að sjá haldbær rök fyrir því að sniðganga vilja þeirra.  Og hvað með þá sem látnir eru?

Jóhanna Sigurðardóttir varð hálf kindarleg í Dagljósi í gærkveldi þegar henni var bent á að nú þegar hún hefði svipt hulunni af sukkinu í ríkisbönkunum væri líklegt að menn myndu hraða einkavæðingu þeirra. En Jóhanna hefur verið einn ötulasti talsmaður þess að pólítíkusar stjórni bankakerfinu og hefur ekki mátt heyra minnst á að venjuleg viðskiptasjónarmið leysi ríkisreksturinn af hólmi. Þarf einkavæðingin stuðningsmenn þegar hún á svona andstæðinga? Áfram Jóhanna!