Margrét Frímannsdóttir formaður Alþýðubandalagsins lætur þess getið í Mogganum á miðvikudag að „forveri hennar í stóli formanns Alþýðubandalagsins“ sé sá sem frekar ætti að tala við um gjaldþrot Þjóðviljans en hana. Þetta er afar athyglisverð athugasemd frá Margréti og nú hlýtur almenningur að bíða spenntur eftir því að nánar verði skýrt frá því frá hverju fyrrverandi formaður og núverandi forseti lýðveldisins á að greina og að fjölmiðlar gangi á eftir þessu við hann. Á þessi athugasemd Margrétar að skiljast svo að eitthvað vafasamt hafi verið við rekstur Þjóðviljans eða í sambandi við gjaldþrotið? Er þetta enn eitt atriðið sem Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, á óuppgert eftir afar umdeildan stjórnmálaferil.
Þetta leiðir hugann að fjárhagslegum viðskilnaði forsetaframboðs Ólafs Ragnars Grímssonar. Fyrir kosningar sagði frambjóðandinn að gerð yrði nákvæm grein fyrir reikningum framboðsins að kosningum loknum. Þótt langt sé nú um liðið hefur ekki enn verið staðið við það.