Fimmtudagur 9. apríl 1998

99. tbl. 2. árg.

Í nýju fréttabréfi fjármálaráðherra er línurit sem sýnir að útgjöld ríkissjóðs hafa farið lækkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu undanfarin þrjú ár. Við fyrstu sýn mætti ætla að ráðdeildarsemi og aðhald í ríkisrektrinum eigi þar stærstan hlut að máli. Svo er hins vegar ekki. Landsframleiðslan hefur einfallega vaxið hraðar en útgjöld ríkisins – þ.e. ríkinu hefur ekki tekist að sólunda öllu góðærinu. Þetta kemur auðvitað ekki fram á grafinu sem þar að auki er á greiðslugrunni en ekki á rekstrargrunni sem gæfi betri mynd. (Það er engu að síður talið upp sem eitt af verkum ríkisstjórnarinnar að færa ríkissjóð yfir á rekstrargrunn.)

Í þessu sama fréttabréfi er súlurit sem sýnir að skattbyrði íslenskra hjóna með tvö börn er með því lægsta meðal OECD ríkja. Þetta graf er ekki síður villandi en hið fyrra þar sem ríkisstyrkurinn barnabætur er dreginn frá skattgreiðslum hjónanna! Af hverju ekki að draga ríkisstyrkta menntun, vegi og heilbrigðisþjónustu einnig frá? Þá mætti örugglega fá út að hjónin græði á því að borga skatta!

R-listinn hélt stefnumótunarfund um síðustu helgi til að ákveða stefnu listans fyrir borgarstjórnarkosningarnar, sem verða eftir rúmar 6 vikur. Ekki liggur R-listafólkinu á að kynna niðurstöðurnar fyrir borgarbúum og segja það a.m.k. ekki verða gert fyrr en eftir páska. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, hefur þó látið svo lítið að upplýsa fjölmiðla um að kosningastefnan verði í meginatriðum sú sama og síðast.

Það er ekki óskynsamlegt hjá R-listanum að notast við sömu kosningastefnu í vor og vorið 1994. Bæði er til þess að líta, að sú stefna reyndist þeim vel á kjördag og til þess að flest þau loforð, sem listinn gaf í kosningunum, eru enn óefnd. Það, sem R-listinn hefur hins vegar gert á kjörtímabilinu, var ekki í kosningastefnunni. Má þar nefna hækkanir á sköttum og gjöldum, útþenslu í embættismannakerfinu og iðnaðarhverfi á því sem sumir telja bestu íbúðarlóðum borgarinnar á Geldinganesi. Það verður forvitnilegt að fylgjast með því í maí hvort borgarbúar falla aftur fyrir fögrum kosningaloforðum, sem ekki stendur til að efna, og gefa R-listanum áfram tækifæri til að framkvæma þá hluti, sem hann lofaði að gera ekki!