Miðvikudagur 8. apríl 1998

98. tbl. 2. árg.

Fréttin um að fjármálaráðherra hafi mælt fyrir um að ÁTVR hætti eigin innflutningi áfengis hefur vakið dálitla athygli. Í fjölmiðlum hefur þó mest borið á andstöðu starfsmanna fyrirtækisins við þessa breytingu. Þannig kom forstjóri ÁTVR fram í sjónvarpi og reyndi að gera lítið úr ákvörðun yfirmanns síns, fjármálaráðherra, og stefnu stjórnar ÁTVR, sem formlega séð var sett yfir fyrirtækið fyrir þremur árum. Taldi hann að breytingin leiddi til þess að ÁTVR yrði „ofurselt valdi heildsalanna“. Ekki verður í fljótu bragði séð hvernig það ætti að koma til, enda eru fjölmörg heildsölufyrirtæki, sem fást við innflutning áfengis, milli þeirra ríkir afar hörð samkeppni og engar líkur eru á því að þau muni á nokkurn hátt sameinast um að kúga ÁTVR. Það sem býr hins vegar að baki ummælum forstjórans er hins vegar líklega það, að breytingin leiðir til þess að heildsalarnir verða hér eftir ekki ofurseldir valdi ÁTVR, eins og verið hefur á undanförnum árum.

Trúnaðarmenn starfsfólks ÁTVR hafa einnig mótmælt því að eigin innflutningi fyrirtækisins verði hætt. Margt er kyndugt í málflutningi þeirra, einkum það að breytingin fari í bága við heilbrigðissjónarmið! Ekki er auðvelt að sjá hvernig slíkar fullyrðingar fá staðist. Breytingin sem fjármálaráðherra boðaði felur ekki í sér neina breytingu á reglum um sölu áfengis til neytenda. Þar mun ÁTVR áfram hafa þá einokunarstöðu sem sumir telja vera svo holla fyrir landsmenn. Einvörðungu er verið að fjalla um það atriði, hvort ríkisfyrirtækið ÁTVR eigi að halda áfram að keppa við einkafyrirtæki í innflutningi á þessari vörutegund.

Hér í VÞ hefur öfgakenndur málflutningur umhverfisverndarsinna stundum verið gagnrýndur en þeim hættir oft til að slá getgátum vísindamanna fram sem fullyrðingum. Vafalaust geta vísindamenn oft talað varlegar um getgátur og lítt rannsakaðar kenningar sínar og þar með komið í veg fyrir að alls kyns tröllasögur komist á kreik og misvandaðir aðilar nýti sér þær í fjárplógsskyni.

Í þessu sambandi má vitna til viðtals í Degi í gær við Sigmund Guðbjarnarson prófessor þar sem hann er spurður um áhrif kemískra efna sem maðurinn hefur veitt út í náttúruna. „Ekki er ólíklegt að þessi kemísku efni valdi vaxandi ófrjósemi manna og jafnvel aukinni kynvillu,“ segir Sigmundur en hann starfaði um tveggja ára skeið hjá FDA (bandaríska lyfjeftirlitinu). Þar segir hann að menn hafi „verið að rannsaka hvort lyf sem móður voru gefin á meðgöngu gætu átt þátt í kynvillu barns.“
Hvaða kemísku efni ætli það séu sem fá annars ágætan vísindamann til að láta svona ummæli flakka? VÞ spyr líka hvað olli „kynvillu“ áður en maðurinn fór að nýta sér kemísk efni?