Þegar Vaclav Klaus tók við embætti fjármálaráðherra í Tékklandi í desember árið 1989 stóðu einkafyrirtæki undir 3% landsframleiðslunnar. Árið 1995 kom 75% landsframleiðslunnar úr einkageiranum. Þetta er auðvitað mikið afrek útaf fyrir sig. Klaus varð forsætisráðherra árið 1992 en í nóvember 1997 varð hann að segja af sér m.a. vegna ásakana um óeðlilega fyrirgreiðslu við stuðningsmenn flokksins í tengslum við einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Kosningar verða væntanlega í haust og skoðanakannanir benda til að jafnaðarmenn muni leysa Frjálslynda bandalagið sem Klaus hefur farið fyrir af hólmi.
Þrátt fyrir hina umfangsmiklu einkavæðingu í Tékklandi eru stórir hlutar fyrirtækja á borð við banka, orku-, samgöngu- og fjarskiptafyrirtæki enn í eigu ríkisins. Vart þarf að útskýra hvaða áhrif t.d. ríkiseign á bönkum getur haft á atvinnulífið (Jóhanna Sigurðardóttir hefur sennilega. útskýrt það betur en flestir aðrir hér á landi). Lán eru veitt til fyrirtækja eftir pólítískri forskrift í stað væntanlegrar arðsemi. Og nú hafa myndast hagmunir hjá þeim kerfiskörlum sem fara með hlut ríkisins í þessum fyrirtækjum. Hagsmunir þeirra eru að koma í veg fyrir einkavæðingu.
Í ítarlegri grein eftir Thomas W. Hazlett í nýjasta tölublaði Reason er einmitt gagnrýnt hvað hægt hefur á einkavæðingunni frá 1994 og bent á að við það hafi einnig hægt á hagvexti þótt staða efnahagsmála í Tékklandi sé enn betri en í öðrum ríkjum austur Evrópu. Klaus lagði framan af stjórnarferli sínum mikla áherslu á að hraða einkavæðingunni og öðrum breytingum frá kommúnisma til kapítalisma sem mest. Taldi hann að ef hægt yrði á einkavæðingunni myndu sérhagsmunahópar (t.d. starfsmenn ríkisfyrirtækja) ná að leggja stein í götu hennar. Síðustu stjórnarárin var hann hins vegar farinn að draga í land og segja má að hann hafi orðið fórnarlamb þessarar kenningar sinnar. Samherjar hans sáu þá þann kost vænstan að setja hann af – a.m.k. fram yfir næstu kosningar.