Ólafur Þ. Þórðarson þingmaður Framsóknarflokks hefur lagt fram fyrirspurn til forsætisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar í fiskeldismálum, annars vegar varðandi eldi vatnafiska og hins vegar eldi fiska í köldum sjó. Í spurningunni felst það viðhorf sem alltof algengt er, þ.e.a.s. að hið opinbera eigi að hafa stefnu í öllum mögulegum og ómögulegum málum. Hvers vegna skyldi ríkisstjórnin þurfa að „marka ákveðna stefnu“, eins og það er oft orðað, í fiskeldismálum? Hlutverk hins opinbera er ekki að marka stefnu fyrir tilteknar atvinnugreinar heldur á það að fylgja þeirri stefnu að gera starfsumhverfi allra atvinnugreina ákjósanlegt. Það er best gert með því að setja atvinnulífinu sem fæstar skorður og halda álögum á það í hófi eins og frekast er kostur. Svar forsætisráðherra við því hver stefnan í fiskeldismálum sé ætti því að vera stutt og skorinort: Engin.
Í menntamálanefnd Alþingis standa yfir átök um lagafrumvarp um bæjarnefni. Samkvæmt frumvarpinu munu bændur þurfa að leita samþykkis Örnefnanefndar hins opinbera þegar þeir gefa bæjum sínum nöfn. Ekki er þó vitað til þess að stórkostleg vandræði hafi skapast af því frelsi sem bændur hafa haft til að gefa bæjum sínum nafn. Hjálmar Árnason, Svavar Gestsson þeirra reyknesinga og varaformaður menntamálanefndar, hefur þó miklar áhyggjur af því að einhver bóndi nefni bæ sinn „Starlight“ ef marka má viðtal við þingmanninn í Degi-Tímanum.
Ef til vill mætti frekar skoða það í menntamálanefnd að fela Örnefnanefnd að koma í veg fyrir að stjórnlyndir og afturhaldssinnaðir þingmenn og stjórnmálaflokkar villi á sér heimildir með því að kenna sig við framsókn.