Föstudagur 20. mars 1998

79. tbl. 2. árg.

Þegar reikningar Pentagon í Bandaríkjunum eru skoðaðir mætti stundum ætla að þar á bæ væru nokkrar lausar skrúfur. Nú er t.d. komið á daginn að fyrir skrúfur sem almennt kosta 40 krónur greiddi Pentagon ríflega 5000 krónur. Í myndinni vinsælu Independence Day kom fram ein skýring á þessu: Pentagon notar mismuninn til að halda úti rannsóknum á geimverum sem brotlent hafa á Jörðinni. Sú skýring hentar vafalaust ágætlega stjórnlyndum og jarðneskum geimverum á borð við Magnús Skarphéðinsson. Aðrir líta sennilega frekar á þetta sem enn eina staðfestingu þess að ríkisrekstur og ráðdeild fara ekki saman.

Sá fátíði atburður átti sér stað í byrjun vikunnar að lagt var fram frumvarp á Alþingi sem hefði í för með sér verulega bætt tekjuskattskerfi yrði það samþykkt. Flutningsmaður frumvarpsins, Pétur H. Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokks, vill kasta því tekjuskattskerfi sem nú er við lýði og taka upp annað með lægri og jafnri prósentu fyrir alla. Þar með myndu jaðaráhrifin alræmdu stórlækka og fólk nennti að vinna yfirvinnu og því væri ekki refsað fyrir dugnað.

Í stuttu máli gerir frumvarpið ráð fyrir því að þegar skattalækkunum þeim sem nú standa yfir verður lokið um aldamótin taki við nýtt kerfi þar sem persónuafsláttur, vaxtabætur og hátekjuskattur falli niður. Tekjuskattshlutfallið lækki um nær helming og verði um 20%.

Helsti gallinn við þetta frumvarp Péturs er að engin von er til að það verði að lögum. Það stafar af því að fáir þingmenn gera nokkuð sem valdið getur fjaðrafoki, en víst er að breyting eins sú sem hér um ræðir yrði umdeild og margir háværir þrýstihópar mundu láta í sér heyra ef hætta væri á að frumvarpið yrði að lögum. En frumvarpið breytir að minnsta kosti umræðunni og ekki veitir af.