Allar tölur í Kína eru háar (nema landsframleiðsla á mann) og þess vegna er það ef til vill ekki að undra að þegar Kínverjar ákveða að skera niður skriffinnskuna skuli 15 ráðuneyti og milljónir ríkisstarfsmanna fá að fjúka. Þetta er engu að síður gleðilegt og gefur vonir um að með nýjum forsætisráðherra, Zhu Rongji, muni kjör almennings í fjölmennasta ríki heims halda áfram að batna. Það er þó ekki síður gleðilegt að frá völdum skuli farinn (að vísu ekki langt) Li Peng, því hann er sá sem talinn er bera mesta ábyrgð á morðunum á Torgi hins himneska friðar árið 1989.
Smáríkið Ísland gæti ef til vill lært eitthvað af þessari viðleitni Kína. Þar í landi á m.a. að leggja niður kolaráðuneytið, vinnumálaráðuneytið og málmsteypuráðuneytið og væri þá ekki fráleitt að gera ráð fyrir að hér mætti a.m.k. hætta rekstri sérstaks landbúnaðarráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Önnur ráðuneyti mætti svo skera duglega niður eða leggja af eftir atvikum. Það er nefnilega laukrétt sem Kínverjar eru að átta sig á, að verðmætin verða til við frjálsa starfsemi einstaklinga úti á markaðnum en ekki við reglusmíði skriffinna í ráðuneytum.
Gerð samningsins um EES var eitt skásta svar Íslands og hinna EFTA ríkjanna við spurningunni um hvernig beri að haga samskiptum við ESB. Að vísu flækir samningurinn okkur í reglugerðanet ESB, en með honum fæst þó aðgangur að innri markaði sambandsins án aðildar að því. Samningurinn er hins vegar alls ekki aðgengilegt plagg og hefur það háð umræðu um hann, hve óaðgengilegt efni hans hefur verið almenningi. Utanríkisráðuneytið hefur bætt nokkuð þar úr með því að gera íslenska útgáfu samningsins og hinar afleiddu gerðir hans aðgengilegar á vefsíðu ráðuneytisins. Þetta kom þó öðrum en lögfræðingum að takmörkuðu gagni og því er ástæða til að vekja athygli á því framtaki Björns Friðfinnssonar að birta á Netinu fyrirlestra sína við lagadeild HÍ um efnið, ásamt heimildum og tilvísunum til dóma Evrópudómstólsins. Frekara fræðsluefni er að finna á heimasíðu samningsins. Áhugafólk um viðskiptafrelsi og sjálfstæði Íslands þarf ekki lengur að sitja hjá í umræðunni um EES, hafi það ekki numið Evrópurétt. Í fyrirlestrunum má finna málefnalega umfjöllun um reglur EES, m.a. varðandi ríkisaðstoð, fjórfrelsið og ríkiseinkasölur.