Barátta Moggans fyrir álagningu nýs skatts á sjávarútveginn, svokallaðs veiðigjalds, hefur nú færst yfir á dagskrársíðuna. Í fyrirsögn vegna viðtalsþáttar í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi við hagfræðinginn Jeffrey Sachs er því slegið upp að hann telji ekki rétt að útiloka veiðigjald og látið að því liggja að þetta sé það helsta sem hann hefur að segja Íslendingum. Þeir sem horfðu á þáttinn heyrðu hins vegar að Sachs telur okkur hafa tekist vel upp í fiskveiðistjórnunarmálum. Hann er að vísu þeirrar skoðunar að kerfið sé ekki fullkomið (fyrr mætti líka vera) og að agnúa þurfi að sníða af, en því fer fjarri að hann mæli sérstaklega með álagningu auðlindaskatts þótt hann útiloki hana ekki. Þegar Sachs var svo beðinn um ráð handa okkur Íslendingum minntist hann auðvitað ekki orði á auðlindaskatt, en lagði megináherslu á þrjú atriði: Að viðhalda stöðugleikanum, hafa skatta lága og hagkerfið sveigjanlegt.
Íþróttahreyfingin hefur nýlega valið í „landsliðið gegn fíkniefnum“. Fullyrða sérfræðingar að þetta muni höfða til æskunnar. Val á fyrirliða landsliðsins hlýtur að orka tvímælis en Ólafur Ragnar Grímsson á að leiða hópinn gegn vímunni. Hefði ekki verið nær að velja einhvern sem náð hefur árangri í öðrum greinum en skattahækkunum? T.d. æskuhetjuna Diego Armando Maradonna.
Þess má geta að fyrsti leikur fyrirliðans gegn fíkniefnum er að bjóða mesta smoker meðal þjóðhöfðingja í opinbera heimsókn til Íslands. En von er á Margréti Þórhildi á næstunni.
Áfengisvarnarráð og aðrir í forvarnariðnaðinum fá 1% af tekjum ÁTVR – eru semsé upp á hlut hjá stærsta vímuefnadíler landsins. Svo eru menn hissa á því að áfengisvarnarráð beini spjótum sínum að landasölunni sem greiðir ráðinu ekki krónu.
Elsa B. Valsdóttir ræddi um nýja menntastefnu í pistli sínum á Rás 2 í gærmorgun.