Þriðjudagur 17. mars 1998

76. tbl. 2. árg.

„Mesti vindhani íslenskra stjórnmála“ Össur Skarphéðinsson skiptir ekki síður um skoðanir og flokka en sokka. Það tók hann til dæmis skamma stund að fara úr buxum herstöðvarandstæðingsins í Alþýðubandalaginu og hysja brækur evrópusinnans upp um sig í Alþýðuflokknum.
Í leiðara DV í gær gerir Össur mikið grín að danska forstætisráðherranum fyrir skoðanaleysi og grámyglulega framkomu. Gott og vel. Paul Nyrup Rasmussen hefur eflaust ekki jafnmargar skoðanir á málunum og Össur og er örugglega ekki eins skemmtilegur (að eigin mati).

En Össur gerir ekki síður gys að þeirri stöðu dönsku stjórnarinnar að hún þarf að reiða sig á stuðning eins þingmanns frá Færeyjum. Segir Össur að færeyski þingmaðurinn haldi pístólu að höfði Pauls Nyrups og geti farið fram á hvað sem er. Vef-Þjóðviljinn man ekki betur en að Össur hafi verið mjög áhugasamur um að ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks sæti áfram eftir síðustu kosningar – með eins sætis meirihluta. Össur sér ef til einhvern mun á því að sitja í danskri ríkisstjórn með færeyska pístólu á hnakkanum og því að sitja í ríkisstjórn á Íslandi með hafnfirska listahátíðarpístólu Guðmundar Árna, tónlistarhússpístólu Björns Bjarnasonar eða lágmarkslaunapstólu Gísla Einarssonar yfir sér. Ef til vill útskýrir hann við tækifæri fyrir okkur hinum í hverju sá munur felst.

Ýmsir muna hve margir fjölmiðlamenn gengu hart fram gegn Sjálfstæðisflokknum þegar hann fór með stjórn Reykjavíkur. Var þá ekki síst reynt að gefa til kynna að borgarstjóri hverju sinni réði því sem hann vildi ráða í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna. Engin dæmi voru þó nefnd þessu til stuðnings þrátt fyrir að eftir hafi verið leitað. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig þessir fjölmiðlamenn hefðu látið ef borgarstjóri hefði þá látið sér detta í hug að skipa sjálfur í eitt af efstu sætum á framboðslista flokksins – og hefði stært sig af því að þurfa ekki að hafa nokkurn mann með sér í ráðum. Nú hins vegar, greina fjölmiðlamenn frá því, eins og ekkert sé sjálfsagðara, að „Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi ákveðið“ að tiltekinn aðili skipi 9. sætið á R-listanum. Nákvæmlega enginn fjölmiðlamaður hefur velt fyrir sér, svo ekki sé annað, hvort eitthvað sé óeðlilegt við þetta.  En það er kannske bara í stíl að 9. sætið á R-listanum sé valið eins og 8. sætið. Með ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur einnar.