Umhverfisvernd er áhugamál ríka mannsins. Umhverfisverndarsamtök eru öflugust í ríkustu löndunum. Í fátækum löndum ber lítið á samtökum umhverfisverndarsinna. Til marks um þetta má einnig nefna að lesendur Sierra (tímarit bandarísku umhverfisverndarsamtakanna Sierra Club sem hefur yfir 500 þúsund félagsmenn) eru að jafnaði með tvöfaldar meðaltekjur Bandaríkjamanna. Þótt okkur þyki oft nóg um mengun í stórborgum vesturlanda er hún lítið mál í samanburði við umhverfisvandamál fátækari landa. Loftmengun víða á Vesturlöndum hefur raunar farið minnkandi undanfarna áratugi enda höfum við efni á ýmsum mengunarvörnum og nýjum og sparneytnum tækjum. Þökk sé hagvextinum.
Það kemur því á óvart að margir umhverfisverndarsinnar eru andvígir hagvexti og efnahagslegum framförum. Eflaust mætti halda því fram að þessir efnuðu umhverfisverndarsinnar vilji koma í veg fyrir að aðrir verði jafnríkir og þeir sjálfir og þess vegna séu þeir andvígir hagvexti. En líklega er ekki rétt að gera þeim upp slíkar hvatir. Ef til vill er skýringarinnar fremur að leita í margræddri andúð menntafólks á frjálsum markaði. Kann að vera að þeir menntamenn sem áður gældu við félagshyggju á háu stigi hafi snúið sér að umhverfisvernd og tekið andúðina á kapítalismanum með sér í umhverfisverndarsamtökin?
Fái Græningjaflokkurinn í Þýskalandi ráðið verður bensínlítrinn þar í landi kominn í 200 krónur eftir 10 ár. Segja má að þetta sé djörf tillaga – þeir gera sjálfir ráð fyrir að tapa fylgi á henni – og að hún lýsi miklum öfgum þegar umhverfismál eru annars vegar. En öfgar í umhverfismálum einskorðast því miður ekki við græningjaflokka. Hér á landi kom nýlega upp sú hugmynd að „gefa“ rafmagn á rafmagnsbíla og má segja að það sé önnur hlið á sama peningnum, en ekki jafn djörf, því hún er greinilega hugsuð til að kaupa atkvæði. Afskipti stjórnlyndra stjórnmálamanna af hegðun fólks hafa hingað til ekki orðið til að bæta kjör þess eða aðstæður. Afskipti í nafni umhverfismála eru ekki heldur til þess fallin.