Ágúst Einarsson þingmaður Þjóðvaka hefur að undanförnu ritað miklar greinar í Morgunblaðið þar sem hann þrástagast á því að jafnaðarmenn séu fjálslynda aflið í íslenskum stjórnmálum en Sjálfstæðisflokkurinn afturhaldið. Af nýjustu tillögu þingmannsins virðist hann leggja þann skilning í hugtakið frjálslyndi að menn eigi að fara frjálslega með skattfé hins opinbera. Tillaga hans gengur nefnilega út á að stofna nýtt ráðuneyti, menningarmálaráðuneyti. Í tillögu hans er auðvitað gert ráð fyrir að sérstakur ráðherra fari með hið nýja ráðuneyti. (Það blasir við hvert auðlindaskatturinn á að fara sem jafnaðarmenn berjast fyrir.) Þarf frjálslyndið andstæðinga þegar það á svona bandamenn?
Í greinargerð með frumvarpi þingmannsins er fullyrt að með sérstöku ráðuneyti megi „efla menningu“. Hvað þá um málefni aldraðra, fatlaðra, málefni landsbyggðarinnar? Má ekki bæta stöðu þessara málaflokka með nýju ráðuneyti að hætti þingmannsins? Ekkert mál!
„Frjálslyndið“ í frumvarpinu kemur þó ef til vill best fram í eftirfarandi orðum í greinargerðinni sem fylgir því: „Meginástæðan fyrir þessu frumvarpi er þó ekki fjárhagslegs eðlis heldur er tilgangurinn að marka skýran farveg fyrir menningu hérlendis.“
Menningin má semsé ekki flæða um allt heldur verður að beina henni í skýran farveg sem menningarmálaráðuneytið velur a la Hriflu-Jónas.
Annar þingmaður hinna frjálslyndu jafnaðarmanna, Gísli Einarsson, skrifar svo í Moggann í gær um þá tillögu sína að banna fólki að vinna fyrir minni laun en honum er þóknanlegt. Frekar skulu menn mæla göturnar og þiggja bætur frá hinu opinbera.
Fornleifafundur er oftast bæði skemmtilegur og fræðandi. Einn slíkur verður haldinn á morgun en þá munu sósíalistar funda í tilefni þess að 150 ár eru síðan Kommúnistaávarpið kom út. Væntalega verður á fundinum minnst allra þeirra milljónatuga manna sem látist hafa af völdum sósíalismans og hinna sem „einungis“ hafa þjáðst hans vegna Heiðursgestur á árshátíð Sósíalistafélagsins um kvöldið verður fornmaðurinn Ögmundur Jónasson, alveg óháður þingmaður Alþýðubandalags. Erindi hans mun líklega heita „Í takt við tímann.“