Helgarsprokið 1. mars 1998

60. tbl. 2. árg.

Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu, m.a. hér í VÞ, hafa embættismenn Samkeppnisstofnunar komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að sameina bakarí. Í það minnsta ef þau eru stór. Þeir setja aðallega fram tvenn rök og verður fjallað um þau hér.

Annars vegar halda embættismenn Samkeppnisstofnunar því fram að ekki náist mikil hagræðing við samruna bakaríanna og hins vegar að stóra bakaríið sem til verður við samrunann sé markaðsráðandi. Fyrri röksemdin er afar furðuleg, því vandséð er hvenær embættismenn ríkisins urðu sérstakir tilsjónarmenn með fyrirtækjum og voru ráðnir til að segja þeim til um fjárfestingar og hagræðingu. Væri ríkisvaldið best til þess fallið að reka fyrirtæki af hagsýni og skynsemi hefði því væntanlega gengið betur í gegnum tíðina með allan þann rekstur sem það hefur illu heilli farið út í. Spurningunni um það hvernig fyrirtæki skuli vera rekin verður ekki svarað í opinberum stofnunum heldur í leit einstaklinga og fyrirtækja á frjálsum markaði að hagkvæmum lausnum. Og því má svo bæta við að ýmsum þætti ekki óeðlilegt að gera þá kröfu til ríksins að það lagaði fyrst til í eigin rekstri áður en það færi að beita hinni yfirgripsmiklu hagræðingarþekkingu til að leysa hagræðingarvanda einkaaðila.

Síðari röksemdin, þ.e. að stóra bakaríið verði markaðsráðandi lýsir litlum skilningi á markaðnum. Embættismenn samkeppnisstofnunar virðast líta svo á að markaðurinn sé óumbreytanlegur, enginn geti komið nýr inn og enginn geti dottið út og enginn geti komið auga á nýja möguleika við breyttar aðstæður. Í stuttu máli að á brauðmarkaði sé í raun enginn markaður en allt sé niðurnjörvað í einhverja óútskýranlega fjötra. Staðreyndin er hins vegar sú að aðgangur að þessum markaði er öllum opinn og ef eitt fyrirtæki ætlar að misbjóða matvöruverslunum og neytendum með háu verði á það t.d. bæði á hættu að verslanirnar stofni sjálfar stórt bakarí og að minni bakaríin auki framleiðslu sína.

Því má bæta við að í þessari umræðu um sameiningu brauðgerða og hagsmuni neytenda sér Jóhannes Gunnarsson talsmaður Neytendasamtakanna ástæðu til að styðja við bakið á Samkeppnisstofnun. Hann færði í útvarpsviðtali fram sömu dellurökin og stofnunin og var mikið niðri fyrir að vanda. Það er umhugsunarvert að þessi samtök kvarta yfirleitt mest þegar einkafyrirtæki eru að bjóða viðskiptavinum sínum alls kyns afslætti og svo í tilvikum eins og því sem nefnt er hér að ofan. Neytendasamtökin gætu hins vegar komið að góðum notum ef þau kvörtuðu hraustlega þegar ríkið neitar neytendum um að fá að njóta einhverrar vöru eða þjónustu einkafyrirtækja, eða ef þau létu í sér heyra þegar neytendur eru neyddir til að greiða fyrir það sem þeir vilja ekki, eins og t.d. áskrift að RÚV.

Þetta hangir vonandi ekki saman við þá staðreynd að Neytendasamtökin eru að hluta til rekin fyrir skattfé og eiga því mikið undir því að hafa stjórnvöld ekki á móti sér. Í öllu falli mætti það verða næsta baráttumál samtakanna að ríkið hætti þessari styrkveitingu og að skattar neytenda lækki sem henni nemur. Í framhaldi af því geta þau svo snúið sér að baráttu gegn inngripum ríkisins í eðlilega starfsemi markaðarins.