Mánudagur 23. febrúar 1998

54. tbl. 2. árg.

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn virðast eiga erfitt með að gera upp við sig hvaða stefnu á að halda fram fyrir kosningarnar í vor. Þannig má í laugardagsblaði Moggans sjá greinar frá tveimur frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins, þeim Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og Júlíusi Vífli Ingvarssyni, þar sem mjög ólík sjónarmið eru reifuð. Vilhjálmur hefur – eins og von er – áhyggjur af skuldasöfnun R-listans og segir m.a.: „Það er krafa borgarbúa að borgarfulltrúar stundi ábyrga fjármálastjórn, verji skattpeningum með skynsamlegum hætti og sníði framkvæmdum og rekstri stakk eftir vexti.“ Undir þetta er óhætt að taka, enda hefur eyðsla borgarinnar, skuldasöfnun og skattlagning fyrir löngu keyrt úr öllu hófi.

En þá ber svo við að tveimur síðum aftar er Júlíus Vífill að lofa því fyrir hönd sjálfstæðismanna að nái þeir meirihluta muni þeir „taka af skarið“ varðandi byggingu tónlistarhúss. Þá verði ekki hikað við að ausa úr tómum sjóðum borgarinnar í nafni menningarinnar og þá fái háværir áhugamenn um tónlist sinn bita. Hvernig slíkt loforð um aukin útgjöld fer saman við „ábyrga fjármálastjórn“ stórskuldugrar borgar er með öllu óskiljanlegt og vægast sagt furðulegt ef sjálfstæðismenn halda að slíkur málflutningur færi þá nær borgarstjórastólnum. Það er líka furðulegt ef sjálfstæðismenn halda að þeir nái meirihluta með því að lofa meiri útgjöldum en R-listinn, því hann hefur sýnt að hann er fyllilega fær um að eyða og spenna. Þar vita borgarbúar hvað þeir hafa og ástæðulaust er að skipta um meirihluta til þess eins að fá aðra menn ef stefnan á að vera óbreytt.

Deila um strætóskýli (um allt má nú þræta!) milli meiri- og minnihluta borgarstjórnar síðustu daga hefur verið með eindæmum. Að hluta eru efnisatriði málsins rædd, en deilan snýst þó meira um að minnihlutinn nefnir sem oftast „dönsk einokunarskýli“ og meirihlutinn heldur því fram að skýlin séu sérstakt umhverfismál vegna fallegrar hönnunar því þau hafi unnið samkeppni, þau séu lík ráðhúsinu (sem vinstri mönnum hefur að vísu hingað til þótt ljótt) og að auglýsingarnar í skýlunum 120 og á súlunum 30 sem þeim fylgja séu til þess fallnar að takmarka auglýsingar í borginni! Skyldi ekki vera mikilvægara að fjalla efnislega um málið en nota tímann að öðru leyti í mikilvægari mál eins og að reyna að finna lausn á slæmri fjárhagsstöðu borgarinnar sem nefnd var hér að ofan.