Undarleg þræta hefur í Mogganum gengið á milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, borgarstjóra, og Ingu Jónu Þórðardóttur, borgarfulltrúa D-lista, um hús sem kallað er Englaborg. Til stóð að borgin keypti húsið undir myndlistarstarfsemi, en einkaaðilar buðu betur og þar sem borgin neitaði að hækka tilboð sitt varð hún af kaupunum. Inga Jóna telur framgöngu borgarstjóra lýsa valdhroka og að kaupa hefði átt húsið. Ekki skal lagt mat á það hvort borgaryfirvöld sýndu hroka í þessu máli, en fráleitt er að halda því fram að borgin hafi þurft á einu húsinu enn að halda.
Það undarlega við þessa deilu Ingu Jónu og Ingibjargar Sólrúnar er að hvorug virtist hafa áhuga á að borgin sparaði fé. Ingibjörg virtist að vísu ekki vilja ganga alveg eins langt í eyðslunni, en var þó til í að bæta nokkrum milljónum króna við útgjöld borgarinnar. Það virðist oft sem útsvarsgreiðendur eigi sér ekki nokkurn málsvara í borgarstjórn og þó að sjálfstæðismenn þar kvarti oft og réttilega yfir eyðslusemi R-listans tekst þeim ekki alltaf að vera samkvæmir sjálfum sér þegar kemur að afgreiðslu einstakra mála.
Í könnun sem ÍM Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið og birtist í blaðinu í vikunni kemur fram að 68,5% aðspurðra telja skatta of háa hér á landi, 30,7% finnast þeir sanngjarnir og 0,8% telja að þeir séu of lágir. Þegar haft er í huga að aðeins þriðjungur framteljenda greiðir tekjuskatt má segja að það komi nokkuð á óvart hve hátt hlutfall svarenda telur skattana vera of háa. Raunar kemur það fram í könnuninni að hærra hlutfall tekjulágra en tekjuhárra telur skatta vera of háa.
Það er því greinilegt að landsmenn vita að virðisaukaskattur er hér hærri en þekkist annars staðar og tekjulágir einstaklingar sleppa því ekki frekar en aðrir við skattpíningu. Þá hefur það örugglega áhrif að tekjulágir einstaklingar sem vilja auka tekjur sínar fá heldur betur að kenna á jaðaráhrifum skatt- og bótakerfisins.
Einnig er greinilegt að Ágúst Einarsson og nokkrir skoðanabræður hans úr Þjóðvaka hafa lent í könnuninni sem skýrir væntanlega þessi 0,8%.
Björn Bjarnason menntamálaráðherra getur þess í nýjasta pistlinum á heimasíðu sinni að ríkisstjórnin hefur samþykkt við afgreiðslu á frumvarpi fjármálaráðherra um áfengisgjald að lög um skemmtanaskatt skyldu felld úr gildi. Það er ekki á hverjum degi sem skattar eru felldir niður og því er sjálfsagt að bíða þess dags með eftirvæntingu er frumvarp fjármálaráðherra hlýtur samþykki. Skemmtanaskatturinn hefur einkum lagst á kvikmyndasýningar og tónleika en átt að nýta til að styrkja menningarstarfsemi t.d. kvikmyndir og tónlist! Gamli góði ríkishókuspókusinn – fé tekið úr einum vasa og sett í annan.