Kolbrún Jónsdóttir, frambjóðandi í prófkjöri R-listans og fyrrverandi þingmaður Bandalags jafnaðarmanna, var í útvarpsviðtali í gær. Þar kom fram að þegar Kolbrún tók þátt í því á sínum tíma að samþykkja frumvarpið um frjálst útvarp hafi hún fundið fyrir mikilli reiði alþýðuflokksmanna. Þetta stangast á við þá söguskoðun sem alþýðuflokksmenn hafa reynt að koma inn hjá fólki, en þeir hafa eðlilega ekki viljað að það færi hátt að þeir studdu ekki þá sjálfsögðu breytingu.
Annað sem vakti athygli í þessu viðtali er að Kolbrún telur sig að mörgu leyti eiga meira sameiginlegt með sjálfstæðismönnum en vinstri mönnum og virðist alls ekki líta á sig sem vinstri mann. Þetta er svo sem í takt við annan rugling hjá vinstri flokkunum, en hlýtur að vekja meiri von meðal sjálfstæðismanna. Nú þurfa þeir ekki annað en óska Kolbrúnu góðs gengis því þá þurfa þeir ekki nema 7 menn í vor.
Stefán Jón Hafstein, sem er í senn ritstjóri Dags og einn af nánustu pólitísku ráðgjöfum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, skrifar grein í blað sitt sl. laugardag þar sem hann hamrar enn á nauðsyn sameiningar vinstri manna. Hann gerir lítið úr málflutningi þeirra sem telja að samstaða milli flokka um grundvallaratriði verði að nást áður en flokkarnir sameinast og gefur í skyn að setja beri málefnadeilur til hliðar til að sameiningin megi takast.
Ekkert af þessu er nýtt í málflutningi manna á borð við Stefán Jón. Það sem hins vegar er athyglisvert í grein hans er dæmið sem hann tekur um afleiðingar þess að vinstri menn láti ágreining um grundvallaratriði hindra samstarf sín á milli. Hann greinir frá því að eftir kosningarnar 1991 hafi vinstri menn haft meirihluta á Alþingi en ágreiningur um EES hafi valdið því að ekki kom til ríkisstjórnarsamstarfs þeirra. Þannig hafi nýr formaður Sjálfstæðisflokksins verið leiddur til stjórnarforystu í landinu, þrátt fyrir að forystumenn hinna flokkanna hefðu haft færi á að dæma hann til fjögurra ára útlegðar! Síðan vísar ritstjórinn til þess að í dag tali enginn um EES og spyr hvað hafi orðið af þessu mikla grundvallarmáli íslenskra stjórnmála.
Ekki er hægt að skilja grein ritstjórans öðruvísi en svo að vinstri menn hefðu árið 1991 átt að gleyma ágreiningi sínum um EES til þess að hindra Davíð Oddsson í að ná fótfestu á vettvangi landsmálanna. Það er greinilegt að mikill hugsjónaeldur brennur í brjósti þessa ritstjóra og að hann lætur málefnalega afstöðu ráða ferðinni!