Er raforka ódýr á Íslandi? Menn gera oft ráð fyrir að svo sé, en við samanburð á tölum úr þýska fréttaritinu Focus og af heimasíðu Rarik má álykta að raforka hérlendis sé með dýrasta móti. Kílówattstundin kostar 6,51 krónu á Íslandi og er þar með 9% dýrari en í Þýskalandi, 35% dýrari en í Bandaríkjunum og 57% dýrari en í Bretlandi. Hvernig á þessu stendur er erfitt að segja, en í öllu falli má ætla að verðið gæti lækkað ef einkarekstur og samkeppni fengju að njóta sín við framleiðslu og sölu á orku eins og á annarri vöru.
Sú er að minnsta kosti skoðun manna í Þýskalandi og Bandaríkjunum, en þar er á fyrri hluta þessa árs verið að gera samkeppni mögulega og er reiknað með verulegri verðlækkun. Eitt skref í rétta átt sem auðvelt er að stíga hér á landi er að einkavæða raforkuvirkjanir og koma á samkeppni meðal framleiðenda raforkunnar. Þá gætu þeir keppt um viðskiptavini sem nytu þess í lægri rafmagnsreikningum.
Margir minnast enn athyglisverðra ummæla Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins, frá því fyrir jól, þar sem hann ræddi um að samstarfið í R-listanum hafi verið skaðlegt fyrir flokksstarf framsóknarmanna í Reykjavík og að þeir ættu að jafnaði að bjóða fram í eigin nafni í sveitarstjórnarkosningum. Nú á þriðjudag bar svo við, að Halldór skrifar grein um samstarfið í R-listanum í opnu Dags. Greinin er ein samfelld lofgjörð um starfið innan borgarstjórnarmeirihlutans og árétting um stuðning höfundar við samstarfið. Leiðari blaðsins fjallar sama dag um þessa grein og vitnað er í hana á forsíðu. Það er því greinilegt að mönnum þar á blaðinu þykir mikils um vert að koma þessum skilaboðum skýrt á framfæri.
Það stingur í augu, að stuðningsblað R-listans skuli telja þörf á að vekja með þessum hætti athygli landsmanna á því að formaður Framsóknarflokksins skuli styðja borgarstjórnarmeirihluta, sem flokkur hans á aðild að. Eitthvað hlýtur því að búa að baki. Er hugsanlegt að með þessu séu framsóknarmenn að reyna að styrkja stöðu sína innan listans? Voru þeir hræddir um að frambjóðendum flokksins yrði refsað í prófkjöri R-listans sem haldið verður á morgun fyrir það að formaður þeirra væri ekki nógu loyal? Hver sem skýringin á þessu kann að vera, er a.m.k. ljóst hvers konar fjölmiðill Dagur er. Hann er ekki venjulegt hlutlaust fréttablað, heldur pólitískt málgagn, sem notað er til að koma pólitískum skilaboðum á framfæri. Aðferðin sem notuð var í þessu tilviki er nákvæmlega sú hin sama og notuð var á gamla Tímanum, gamla Þjóðviljanum, gamla Alþýðublaðinu, og hvað þessi blöð öll heita, sem vinstri menn gáfust upp á að gefa út þegar ljóst varð að almenningur hafði í áratugi látið ógert að kaupa þau.
Eftir að VÞ vakti athygli á nafnabragði vinstrimanna í gær gerast þær kröfur nú æ háværari innan Sjálfstæðisflokksins að stóru trompi verði spilað út með því að Árni Sigfússon kalli sig Árna Johnsen Sigfússon í kosningunum í vor.