Fimmtudagur 29. janúar 1998

29. tbl. 2. árg.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrverandi framsóknarmaður og núverandi alþingismaður Alþýðuflokksins, sem margir kalla nú orðið „Fyrirspurnarflokkinn“, brást illa við á þingi í gær þegar Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra lét þess getið hversu kostnaðarsamt hefði verið að svara tiltekinni spurningu frá Ástu. Hjá spyrlinum skiptir greinilega miklu máli að baða sig í ljósi fjölmiðla en engu hver kostnaður fyrirspurna er. Þótt mikilvægt sé að þingmenn veiti framkvæmdarvaldinu aðhald, m.a. með fyrirspurnum, er staðreyndin hins vegar sú að kostnaðurinn skiptir máli. Án upplýsinga um kostnað er engin leið að meta hvort fyrirspurn hafi verið til góðs eða ills og þá geta þingmenn allt eins hellt slíkum fjölda flókinna fyrirspurna yfir ráðuneytin að þar sé fátt annað gert en svara þeim. Til að spurningar verði sem markvissastar ættu allir ráðherrar alltaf að gefa upp kostnaðinn sem þeim fylgdi um leið og þeim er svarað.

Gísli S. Einarsson þingmaður krata fór fram á það af þingheimi í gær að afgreiðslu frumvarps hans um lágmarkslaun verði hraðað. Hann talar eins og hann haldi að ef sett eru lög um tiltekin lágmarkslaun gerist það eitt að þeir sem nú fá lægri laun muni hækka. Það væri mikill barnaskapur hjá þingmanninum ef hann væri þeirrar skoðunar. Vera kann að einhverjir hækkuðu í launum við slíka lagasetningu, en margir yrðu líka atvinnulausir hennar vegna. Lágmarkslaun væru einfaldlega ávísun á aukið atvinnuleysi, nema ef þau væru ákvörðuð lægri en lægstu laun eru í dag, þ.e. ef þau væru alger markleysa.

Raunar virðast formælendur lagasetningar um lágmarkslaun átta sig á þessu. Annars færu þeir væntanlega fram á að allir hefðu a.m.k. hálfa eða heila milljón króna í laun á mánuði, enda ástæðulaust að láta fólk þurfa að vinna fyrir 100 þúsund krónur ef miklu hærri laun valda engum vandræðum. Því miður eru tillögur um lágmarkslaun sýndarmennskan ein og aðeins fluttar til að koma tillöguflytjendum í fjölmiðla.

Mörgum vinstrimönnum er minnisstætt hvernig kona Ólafs Ragnars sem áður gekk undir nafninu Búbba kom sá og sigraði í forsetakosningunum undir nafninu Guðrún Katrín. Þetta nafnatrikk virðist vera vinsælt herbragð í prófkjöri R-listans, þannig er Hrannar B. Arnarson nú orðinn Hrannar Björn og Steinunn V. Óskarsdóttir orðin Steinunn Valdís. Einn frambjóðandi sem ekki hefur enn gripið til þessa bragðs er Guðrún Jónsdóttir, en þess verður varla langt að bíða að hún fari að auglýsa sig sem Guðrúnu Ólafíu.

Fyrrverandi fegurðardrottning af Suðurlandi, Sigrún Elsa Smáradóttir, hefur sett upp heimasíðu á Netinu. Þetta er þó ekki gert til að gleðja augu lesenda, heldur til að kynna Sigrúnu Elsu, en hún er í framboði í prófkjöri R-listans um næstu helgi.