Davíð Þór Jónsson flytur reglulega pistla á Bylgjunni. Í málflutningi sínum þar og annars staðar hefur hann þótt hallur undir aukin ríkisafskipti, en í gær kvað við annan tón. Davíð Þór sagði sögu af því þegar hann var einhverju sinni staddur í Svíþjóð og var sektaður fyrir að leggja bíl sínum. Ekkert skilti hafði bannað að þar væri lagt bíl og því kvartaði hann undan sektinni. Þá var honum bent á að í Svíþjóð væri reglan sú að þar sem ekki væri beinlínis tekið fram að leggja mætti bíl væri það bannað! Eins og gefur að skilja fannst Davíð Þór þetta skrítileg regla, svo ekki sé fastar að orði kveðið (hann kvað raunar mun fastar að orði eins og hans er von og vísa), og fannst honum þetta viðhorf ríkjandi í fleiru í sænsku þjóðfélagi og því miður líka íslensku. Óhætt er að taka undir það að bannáráttan er allt of mikil hérlendis og mæla um leið með því að fleiri kynni sér bann- og forsjárhyggju nágranna okkar.
Í gærkvöldi var í Dagsljósi rætt um hvort starfslaun til listamanna ættu rétt á sér. Tveir þeirra sem sérstakra hagsmuna eiga að gæta reyndu að sannfæra landsmenn um að rétt væri að halda áfram að nota skattfé til að greiða þeim fyrir að sitja við listsköpun. Andmælendur lögðu hins vegar áherslu á að auk þess sem landsmenn ættu rétt á að ráðstafa fé sínu sjálfir væru úthlutunarnefndir ekki hafnar yfir gagnrýni í úthlutun sinni. Einar Hákonarson myndlistarmaður hafði til dæmis áhyggjur af því að oft væru annarleg sjónarmið ráðandi við úthlutun og listmálarinn Tolli hafði miklar efasemdir um listamannalaunin og vildi alla myndlist á markað.“ Heiðrún Hauksdóttir háskólanemi benti á að við núverandi kerfi væri hætt við að mikil íhalssemi ríkti við úthlutanir, þannig að nýir straumar sæjust síður.
Það var auðvitað við hæfi að þessi umræða færi fram í Ríkissjónvarpinu, svona rétt til að minna okkur enn frekar á alltumlykjandi faðm ríkisins. Hrósvert er reyndar hjá stofnuninni að taka þetta mál fyrir, þó hætt sé við að það skili ekki breytingum á listamannalaununum, því menntamálaráðherra er ekki líklegur til að vilja styggja sérhagsmunahópa.
Clinton Bandaríkjaforseti hélt í nótt stefnuræðu sína, State of the Union, og fjallaði þar um flest milli himins og jarðar – nema að vísu það sem forvitna helst fýsti að vita, þ.e. meint ástarmál hans. Demókratar studdu forseta sinn með tíðu og áköfu lófataki þar sem Al Gore gegndi hlutverki klappstýrunnar, en ræðan var annars hefðbundin. Í henni kom fram að ræðumaður hefði bætt flest í bandarísku þjóðlífi og víðar upp á síðkastið og hygðist leysa það sem út af stendur á næstu misserum. Þetta er algengt viðhorf bæði hjá mörgum stjórnmálamönnum og almenningi, að með tilteknum sértækum aðgerðum geti stjórnmálamenn leyst hvers manns vanda. Raunveruleikinn er þó allur annar, því oft eru það einmitt þessi sífelldu afskipti sem valda vandanum. Nokkur skilningur kom þó sem betur fer fram á þessu þar sem forsetinn sagði frá því að bæði ríkisstarfsmönnum og reglugerðablaðsíðum hefði verið fækkað, en skilninginn skorti þegar hann sagðist ætla að hækka lögbundin lágmarkslaun.