Þriðjudagur 27. janúar 1998

27. tbl. 2. árg.

Vinstri menn hafa stundum verið gagnrýndir, m.a. hér í VÞ, fyrir að segja eitt í gær og annað í dag. Þetta er heldur hvimleiður siður en nú hefur forseti borgarstjórnar og frambjóðandi í prófkjöri R-listans, Guðrún Ágústsdóttir, skorið upp herör gegn honum. Hún skrifar í DV 15. janúar síðastliðinn um það sem hún nefnir „græna, róttæka og raunsæa stefnu“ í skipulagsmálum. Til að tryggja að hún flýi ekki skoðanir sínar er svo gott sem öll greinin orðrétt eins og grein sem sama Guðrún birti í Morgunblaðinu 11. júlí 1997. Greinar í DV verða að vísu að vera styttri en í Mogganum, þ.a. Guðrún sleppir hluta fyrri greinar og gerir smávægilegar breytingar á nokkrum setningum en því sem næst öll greinin er tekin frá orði til orðs úr fyrri grein hennar. Texti síðari greinar Guðrúnar þekur 109 línur í blaðinu, 91 lína er orðrétt tekin úr greininni sem hún skrifaði 6 mánuðum áður. Samkvæmt því eru 83 % greinarinnar orðrétt endurbirting, í 17 % greinarinnar eru einhverjar breytingar gerðar.
Þetta er allgóður árangur, en þó má benda Guðrúnu á að hún hefði getað aukið enn á endurtekninguna með því að nota sömu fyrirsögn og sömu mynd.

Í síðdegisþætti Rásar 2 í gær var rætt við tvo lækna og kom þá fram að þeir telja að fram þurfi að fara athugun á því hvort byggja eigi hér nýtt sjúkrahús. Þeir nefndu að ef miðað væri við reynsluna frá Noregi þá muni kostnaður við slíkt hús vera litlir 40 milljarðar króna hérlendis, eða um þriðjungur fjárlaga eins árs. Sú aðferð sem læknarnir beita við að reyna að fá fé í þennan málaflokk er vel þekkt og iðulega notuð. Fyrst er tíundað hversu mikil þörfin fyrir fjármagn er (og hún er vissulega alltaf fyrir hendi alls staðar, ekki síst í heilbrigðiskerfinu), svo er talað um að rétt sé að láta rannsaka þörfina nákvæmlega. Að lokinni þeirri rannsókn liggur fyrir skýrsla vinnuhóps (sem er vitaskuld að miklu leyti skipaður sérstökum áhugamönnum um þetta tiltekna málefni) og þar er mælt með framkvæmdinni. Þá hefst þrýstingurinn á stjórnmálamennina fyrir alvöru og eftir nokkurn tíma er málið komið á það stig (af því að enginn þorði áður að slá það út af borðinu) að ekki verður undan því vikist að hefja framkvæmdir. Þá fyrst er komið að afleiðingunum: Óþekkti skattgreiðandinn fellur í valinn.

Gott dæmi um það sem lýst er hér að ofan er umræðan um byggingu tónlistarhúss. Nú hefur menntamálaráðherra sett á fót nefnd um það mál og er þess varla langt að bíða að skattgreiðendur fái kveðju vegna þessa.