Í síðustu viku var sagt frá skuldum stjórnmálaflokkanna í fréttum Stöðvar 2. Kom fram að Alþýðubandalagið skuldar mest eða um 60 milljónir króna. Tekið var fram að skuldirnar væru frá því fyrir formannstíð Margrétar Frímannsdóttur. Datt vafalaust flestum í hug að um væri að ræða gamlar syndir vegna Þjóðviljans sáluga. En þær (um 30 milljónir króna) munu hafa horfið með gjaldþroti Þjóðviljans þannig að það skýrir ekki stöðuna. Á svipuðum tíma og Þjóðviljinn fór í gjaldþrot og Alþýðubandalagið fékk sér nýtt nafn og kennitölu á málgagn sitt fór Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi formaður flokksins, mikinn í herferð sem hann nefndi siðvæðingu stjórnmálanna. Ef til vill kann þessi siðvæðingarherferð að hafa kostað skildinginn og þar sé komin ásstæða fyrir skuldahala Alþýðubandalagsins. Til að fá úr því skorið þurfa fréttamenn að hringja á Bessastaði.
Um helgina var dreift til borgarbúa blaði frá R-listanum, þar sem frambjóðendur í prófkjöri listans fyrir borgarstjórnarkosningarnar í voru eru kynntir. Margt athyglisvert kemur þar fram, ekki síst margítrekaðar yfirlýsingar um að prófkjörið sé sérlega lýðræðislegt og reglurnar einfaldar. Hér er auðvitað um hrein öfugmæli að ræða. Prófkjörið er ekki lýðræðislegra en svo, að borgarstjóraefni listans þarf ekki að taka þátt í því og sækja þannig umboð til stuðningsmanna listans. Þess í stað á viðkomandi frambjóðandi 8. sætið frátekið. Þá eru prófkjörsreglurnar svo snúnar, að jafnvel hinir glöggskyggnustu kosningaáhugamenn átta sig ekki á þeim, þrátt fyrir ítarlega yfirferð yfir þær leiðbeiningar, sem fram koma í R-listablaðinu.
Í R-listablaðinu er að finna greinar eða auglýsingar frá hverjum frambjóðanda fyrir sig. Sumir spyrja áhugaverðra spurninga eins og hvers vegna þurfi umhverfisverkfræðing, verkakonu eða útfararstjóra í öruggt sæti. Aðrir leggja áherslu á slagorð, bæði ný og notuð. Skemmtilegasta dæmið um hið síðastnefnda er slagorð Helga Hjörvar; Kraftur nýrrar kynslóðar. Hér er um að ræða sömu yfirskrift og ungir sjálfstæðismenn völdu fyrir þing sitt á Ísafirði sumarið 1991 og notuðu síðan sem heiti á fréttablaði sínu í mörg ár. Fróðir menn og minnugir telja sig líka muna, að ungir framsóknarmenn hafi notað þetta sama slagorð á einhverju landsþingi sínu fyrir örfáum árum. Það verður því ekki annað sagt en R-listaframbjóðandinn sýni gott fordæmi í sambandi við endurvinnslu með vali sínu á slagorði!