Þorsteinn Már Baldvinsson Samherjafrændi var í viðtali í sjónvarpsfréttum síðastliðinn laugardag. Þar kom fram að hann er alfarið á móti því að ríkisvaldið skipti sér af samningamálum útvegs- og sjómanna, sem er ánægjuleg skoðun í ljósi þess að aðilar vinnumarkaðarins eru yfirleitt þeirrar skoðunar að ríkið eigi að leysa öll þeirra mál. Vitaskuld á það að vera mál atvinnurekenda og starfsmanna hvernig semst um kaup og kjör og ríkisvaldið á að halda sig þar fjarri. Ríkisvaldið verður því núna vegna þessara samninga að fella niður sjómannaafsláttinn, sem sjómenn hafa lengi litið á sem hluta launakjara sinna. Það er engin ástæða til þess að flestir skattgreiðendur niðurgreiði skatta sumra skattgreiðenda, sér í lagi þegar um er að ræða hálaunaða sjómenn. Sjómannaafslátturinn kostar skattgreiðendur 1.6 milljarð árlega og mætti lækka tekjuskattshlutfall launamanna um 1% ef hann væri lagður af.
The Economist fjallar í nýjasta tölublaði sínu um umhverfisráðstefnuna í Kyoto og segir þar m.a.: Þegar saman koma diplómatar frá 159 löndum og þar að auki lobbýistar með a.m.k. jafn margar stefnur – leynt og ljóst – á einn stað er öruggt að niðurstaðan verður mörkuð af hræsni, bellibrögðum og tómri vitleysu. Það var einmitt það sem gerðist í samningunum sem lauk í vikunni í Kyoto um að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.