Össur Skarphéðinsson er sjaldan feiminn við að úttala sig opinberlega um mál sem hann hefur ekki hundsvit á – en stundum reyndar um hin líka. Umhverfisráðstefnan í Kyoto er engin undantekning á þessu, en á niðurstöðum hennar og umhverfismálum almennt hefur Össur ýmsar skoðanir. Hann hefur haldið því fram að Íslendingar eigi að hætta stóriðjudraumum sínum og minnka loftmengum og hljómar þar alveg eins og gamall flokksbróðir hans Hjörleifur Guttormsson. Á sama tíma kvartar hann yfir því að ríkisstjórnin hafi ekki haldið nógu vel á málum fyrir Ísland á ráðstefnunni, hægt hefði verið að fá miklu meiri útblástursheimild í gegn með einhverjum öðrum aðferðum. En hvernig má það vera að Össur vilji bæði draga úr mengun og kvarti yfir því að hún sé ekki aukin? Ætli þetta verði ekki að teljast enn ein staðfesting þess að fyrrverandi aðstoðarmaður hans hafi haft rétt fyrir sér þegar hann kallaði Össur mesta vindhana íslenskra stjórnmála.
Vegatollar eru aðalumfjöllunarefni nýjasta tölublaðs The Economist og telur blaðið bæði nauðsynlegt og sjálfsagt að taka þá upp í mun meiri mæli en nú er gert. Bent er á að þetta sé besta leiðin til að draga úr umferðarteppu sem skapast á annatímum og þeirri loftmengum sem verður oft í stórborgum vegna þessarar teppu. Nú er það svo að vegagerð hefur verið eitt af því sem álitið hefur verið sjálfsagt að hið opinbera sæi um og fjármagnaði. Þess vegna er hætt við að lagðir hafi verið of miklir og dýrir vegir, þ.e. meiri en fólk var í raun tilbúið að greiða fyrir, og að jafnframt hafi verið ýtt undir mengun. Hið sama gildir því um þetta og flest annað sem hið opinbera hefur komið nálægt, það hefði betur haldið sig í burtu.