Mikið rosalega er maturinn hérna vondur, sagði kerlingin við vinkonu sína þar sem þær voru úti að borða. Já og svo er líka naumt skammtað!
Vinstri menn eru manna duglegastir að kvarta yfir frammistöðu ríkisins en heimta svo alltaf meira af þessu sama úldna ríkisvaldi. Jóhanna Sigurðardóttir kvartar árlega yfir rekstri ríkisbankanna en vill að ríkið reki þá áfram og stofni helst fleiri. Svavar Gestsson fer iðulega í pontu á þingi til að kvarta yfir Ríkisútvarpinu en er fremstur í flokki þeirra sem vilja að ríkið reki útvarp áfram og lengi vel vildi hann banna öllum öðrum að reka útvarp. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir finnur vikulega ný dæmi um ranglætið í ríkisreknu heilbrigðiskerfinu en engu að síður vill hún að ríkið haldi rekstri þess áfram. Stúdentaráð kvartar reglulega yfir frammistöðu ríkisins í menntamálum en krefst þess engu að síður að ríkið herði tök sín á þeim málaflokki.
Björgvin Guðmundsson gerði þessa afstöðu Stúdentaráðs að umræðuefni í grein í Morgunblaðinu fyrir stuttu. Þar sagði hann m.a.: Ég er hættur að furða mig á því að vinstri menn innan Háskólans sjái ríkisvaldið sem upphafið og endir alls hér á landi. Dæmin eru nýmörg og það nýjasta er viðtal við formann stúdentaráðs Háskóla Íslands í fréttum 24. nóvember s.l., þar sem hann sagði að nauðsynlegt væri að ríkisvaldið gripi til aðgerða vegna þess að fjöldi háskólastúdenta væri tilbúinn til að starfa erlendis ef sambærileg eða betri kjör byðust og hér á landi. Margir stóðu á gati eftir þessa frétt. Hvað var það sem ríkisvaldið átti eiginlega að gera til þess að lokka ungt atorkusamt fólk til að starfa frekar hér á landi en erlendis ef þeim byðist betra kaup þar? Eru stjórnvaldsaðgerðir nauðsynlegar til að lífið á skerinu verði bærilegt háskólafólki? Er samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja, í baráttunni um háskólamenntað starfsfólk, betri á alþjóðlegum vinnumarkaði með auknum ríkisafskiptum? Væri ekki betra ef stjórnvöld létu af afskiptum sínum og gæfu fyrirtækjum meira svigrúm til að bjóða vel í verðmæta starfsmenn? Ríkisvaldið er ekkert lausnarorð í þessari umræðu.
Og Björgvin hélt áfram: Það kostar að vera í háskóla. Fórnarkostnaðurinn er þó nokkur þar sem námsmaður missir af vinnu, borgar innritunargjöld, greiðir fyrir ritföng og bækur og tekur e.t.v. námslán. Þó telur námsmaður sig græða þegar til langs tíma er litið, meðal annar vegna væntanlegra hærri launa og eins þess að menntunin sem slík er afar verðmæt fyrir einstaklinginn. Því er mikilvægt að hver og einn njóti arðs af þessari fjárfestingu sinni í formi hærri launa og starfsframa. Í ljósi þess má kannski segja að vinstri menn á Íslandi séu að segja, með jafnlaunastefnu sinni í gegnum skattkerfið og tekjutengingu ýmissa bóta, að menntun borgi sig ekki. Er þá eitthvað skrýtið að víðsýnir háskólastúdentar, sem sjá heiminn sem eitt atvinnusvæði, séu tilbúnir að leggja land undir fót og notfæra sér fjárfestingu sína í öðrum löndum? Verða vinstrimenn í Háskólanum og víðar ekki að líta sér nær. Ríkið verður að halda að sér höndum.