Leiðir til úrbóta í fíkniefnamálum hafa nokkuð verið til umfjöllunar hér í Vef-Þjóðviljanum og víðar að undanförnu. Hefur verið hvatt til fordómalausrar umræðu um það mál, enda hafa verið færð fyrir því margvísleg rök að hefðbundnar aðferðir í baráttunni við fíkniefnavandann, þ.e. boð og bönn, lögregluaðgerðir og tolleftirlit, hafi ekki skilað miklum árangri. Þess vegna sé full ástæða til að ræða í alvöru, hvort tilslakanir í löggjöf geti átt þátt í því að koma þessari neyslu upp á yfirborðið, draga þannig úr ofurvaldi harðsvíraðra afbrotamanna á þessum markaði og jafnframt gert mönnum auðveldara að takast á við vanda þeirra einstaklinga, sem misst hafa fótanna í neyslu þessara efna.
En ríkisvaldið telur sig þurfa að skipta sér af neyslu fleiri efna en þeirra, sem í dag eru talin ólögleg fíkniefni. Þannig hefur ríkið milljarða tekjur af sölu áfengis í landinu, bæði í gegnum innheimtu sérstaks áfengisgjalds og með rekstri ÁTVR, auk þess sem ríkið er eini löglegi innflytjandi tóbaks. Einkaréttur ríkisins á rekstri smásöluverslana með áfengi er réttlættur með því að neysla þess sé skaðleg, en enginn hefur hins vegar reynt að sýna fram á að neyslan sé skaðminni ef það eru ríkisstarfsmenn sem afhenda neytandanum vöruna en ef starfsmenn verslana í einkaeign gerðu það. Tóbakið virðist vera frábrugðið áfenginu að því leyti, að það virðist vera allt í lagi þótt það sé selt í einkaverslunum úti um allt land, en hins vegar eru talin einhver sérstök heilbrigðisrök fyrir því að innflutningurinn sé allur á hendi ríkisins. Ef eitthvert samræmi væri í þessum málflutningi ættu menn auðvitað að taka upp algert bann við innflutningi og sölu þessara efna eða þá að hverfa aftur til þess fyrirkomulags, að allir þættir verslunar með þessar vörur væru á hendi ríkisins. Fáum dettur hins vegar að mæla því bót, enda virðist reynslan sýna fram á það með óyggjandi hætti að þeir sem drekka áfengi sér til tjóns ná sér alltaf í það, og sama á við um þá sem ánetjast hafa tóbakinu. Boð og bönn virðast ekki megna að ráða við þennan vanda.
Ýmsar kostulegar hliðar eru á tilhneigingu ríkisvaldsins til að stýra neyslu borgaranna frá hættulegum efnum. Þannig hafa íslenskir embættismenn í hollustugeiranum talið að tiltekið litarefni í matvælum væri hættulegt fólki. Hefur þetta leitt til þess að ýmsar vörur, þar á meðal hið vinsæla sælgæti M&M, hafa verið bannaðar hér á landi um árabil. Nú er það svo, að hollustu- og heilbrigðisverndarmenn annars staðar í Evrópu hafa ekki metið það svo að neysla M&M hafi slík skaðvænleg áhrif að það réttlæti bann við innflutningi og sölu þess. M&M hefur því með einhverjum sérstökum hætti skaðlegri áhrif á heilsu Íslendinga en fólks af öðru þjóðerni. Eða það skyldi maður halda. En hvað veldur því þá að yfirvöld láta átölulaust að M&M er selt í miklu magni til Íslendinga þegar þeir koma við í Fríhöfninni í Leifsstöð á leiðinni heim frá útlöndum? Er M&M minna skaðlegt þeim Íslendingum sem mikið eru á faraldsfæti en þeim sem heima sitja?
Áhugamönnum um breytingar á fíkniefnalöggjöfinni er sem fyrr bent á heimasíðu DrugSense: