Í Vef-Þjóðviljanum hefur áður verið bent á að það sé engin allsherjarlausn að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga þ.e. frá einum hluta ríkisvaldsins til annars. Val fólks er áfram takmarkað. Þetta kom berlega í ljós þegar grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna. Við það voru t.d. Reykvíkingar ekki lengur neyddir til að versla við Björn Bjarnason, menntamálaráðherra heldur Sigrúnu Magnúsdóttur, formann fræðsluráðs borgarinnar. Skólinn starfar svo áfram eftir einhverri formúlu (námsskrá) frá menntamálaráðuneytinu og sameiginleg launanefnd sveitarfélaganna samdi við nefnd frá kennurum um hversu mikið eigi að greiða þeim. Kennarar, foreldrar og nemendur eiga því ekkert val. Allir sitja uppi með sama kerfið. Annaðhvort versla menn við sveitarfélögin eða sleppa því að senda börnin í skóla (sem raunar er bannað).
Náttfari slær þessum „valmöguleika“ líka upp í grín í lok pistils síns og bendir á að menn geti t.d flutt úr Garðabæ í Hafnarfjörð ef þeir séu óánægðir með þjónustuna í Garðabæ! Ef það verður þá ekki búið að sameina Garðabæ og Hafnarfjörð.
Elsa B. Valsdóttir sagði að lægri skattar, sveigjanlegur eftirlaunaaldur og frelsi í lífeyrismálum væru helstu hagsmunamál afa og ömmu alveg eins og okkar hinna í pistli sínum á Rás 2 14. október. Hún ræddi um um skylduaðild að verkalýðsfélögum í pistli sínum á Rás 2 27. október síðastliðinn og um prófkjör og Póst og síma í pistlinum 11. nóvember. Fjörug skoðanaskipti hafa átt sér stað um pistlana í dagblöðum og á kjaftarásum útvarpsstöðvanna. Næsti pistill Elsu er á Rás 2 í dag, þriðjudag, kl. 8:30.