Árni Sigfússon skrifar í sama blað grein um hugmyndir sem fram hafa komið um sameiningu sjúkrahúsa. Hann leggur áherslu á að samkeppni sé nauðsynleg í heilbrigðisþjónustu eins og annars staðar og ef af sameiningu yrði misstu stjórnendur sjúkrahússins það aðhald sem þeir nú búa við. Undir þetta má taka, en Árni hefði að ósekju getað gengið lengra. Hann hefði mátt benda á að á meðan hið opinbera sér um reksturinn og keppir nær eingöngu við sjálft sig er ekki von á miklum árangri. Það sem vantar í heilbrigðisþjónustuna eru aukin umsvif einkaaðila og að sama skapi minni umsvif hins opinbera. Þá fyrst geta kostir frjáls markaðar nýst að einhverju marki, þjónustan batnað og kostnaður minnkað.
DV hefur að undanförnu auglýst sig sem fallöxina í íslensku þjóðfélagi. Með því er væntanlega vísað til þess að blaðið taki stjórnvöld engum vettlingatökum. Jónas Kristjánsson, ritstjóri blaðsins frá upphafi, hefur heldur ekki sparað stóru orðin þegar kemur að frammistöðu þingmanna og m.a. kallað þá þjófa. Það kemur því mörgum á óvart að fyrrverandi ráðherra og núverandi þingmaður skuli tylla sér í ritstjórastólinn við hlið Jónasar.
Ráðning þingmannsins kemur á besta tíma fyrir R-listann. Nú er ekki nóg með að kosningastjóri listans ritstýri Degi-Tímanum heldur er einn dyggast stuðningsmaður listans og svili Ingibjargar Sólrúnar tekinn við ritstjórn DV.
Það má líka velta því fyrir sér hvað þessi þingmaður og aðrir þingmenn Þjóðvaka hefðu sagt ef einhver þingmaður Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks hefði tekið við ritstjórn DV.