298. tbl. 1. árg.
Í nýjasta tölublaði The Economist fjallar leiðarahöfundur þess um endurvinnslu. Algeng skoðun svokallaðra náttúruverndarsinna og þeirra sem vilja kaupa sér vinsældir almennings er að sem mest skuli endurunnið. Kostnaður má samkvæmt þessum kenningum ekki að þvælast fyrir þegar ákarðanir eru teknar um endurvinnslu. The Economist tekur aðra afstöðu og bendir á það tæki sem dugað hefur best til að raða vörum niður í heiminum, þ.e. verðið. Kostnaðurinn er öruggasti og besti mælikvarðinn á það hvort endurvinnsla borgar sig eða ekki og tilskipanir hins opinbera henta ekki í þessu fremur en öðru. Borgi sig sums staðar betur að urða úrgang en að endurvinna hann (t.d. vegna dreifðrar byggðar) er skynsamlegra að gera það en sóa fé í endurvinnslu. Séu sveitarstjórnir skikkaðar til að endurvinna þó það sé dýrari kostur en aðrir þýðir það bara að minna verður eftir til annarra hluta, þ.á.m. náttúruverndar. Slíkar tillögur eru því til þess fallnar að minnka lífsgæði fólks en ekki auka þau þótt það hljóti að vera tilgangurinn. Staðreyndin er nefnilega sú, að spurningin um endurvinnslu er ekki siðferðileg heldur efnahagsleg. Borgi sig að endurvinna ber að gera það, annars ekki.
Rætt er við fjármálaráðherra í nýjum Ökuþór, málgagni FÍB, um skattlagningu bíla og eldsneytis. Hann er m.a. spurður að því hvort taka eigi til baka hækkun á bensíngjaldi um 1,09 kr. á lítrann. Svo mun samkvæmt ráðherranum ekki vera og er á honum að skilja að engin ástæða sé til slíks þar sem þetta sérstaka vörugjald eins og það er kallað hafi ekki verið hækkað eins mikið og lög leyfa. Það er sum sé ekkert við það að athuga að taka af fólki krónu á lítrann af því að hægt væri að taka rúmar tvær! Þetta eru vitaskuld ekki boðleg rök ráðherra, sérstaklega ekki ráðherra flokks sem vill láta líta á sig sem skattalækkanaflokk. Ráðherrrann verður að skera niður af mun meira kappi en gert hefur verið, einkavæða ríkisfyrirtæki og lækka skatta. Hækkanir gjalda eiga alls ekki að þekkjast og óþarfi af ríkisstjórninni að apa slíkt eftir R-listanum.
|