Á undanförnum misserum hefur þeim fjölgað sem líta á dagblaðið Dag-Tímann sem sérstakt fréttabréf R-listans. Er kannski ekki við öðru að búast á meðan ritstjóri blaðsins er einnig í kosningastjórn R-listans. Þykir ýmsum sem skrif blaðsins beri þessum tengslum óeðlilega skýrt vitni. Á dögunum var þó í blaðinu viðtal við Ágústu Johnson, sem gefið hefur kost á sér í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. Í viðtalinu talar Ágústa um ýmis baráttumál sín og hugðarefni og segir stuttlega frá sjálfri sér. Í lokin kemur fram hjá blaðamanni að Inga Jóna Þórðardóttir hafi gefið kost á sér í 1. sæti framboðslistans en Ágústa segist styðja Árna Sigfússon til að leiða lista flokksins í komandi kosningum og vilja helst að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi verði í öðru sæti.. Hún segist ekki hafa gert upp hug sinn um það hvern hún vilji helst sjá í 3. sætinu og geti því gefið út „neina ákveðna stuðningsyfirlýsingu við Ingu Jónu í það sæti að svo komnu máli“. Allt í lagi. En hver halda menn svo að verði fyrirsögn viðtalsins? Eitthvað um baráttumálin kannski? Jafnvel eitthvað um stuðninginn við Árna? Ó nei. Risafyrirsögn: „Styður ekki Ingu Jónu“! Og á forsíðu blaðsins er mynd af Ágústu og fyrirsögn: „Ágústa styður ekki Ingu Jónu.“
Nú finnst kannski einhverjum að þetta skipti engu máli. En hvað ætli menn segðu ef t.d. Morgunblaðið stundaði þessi vinnubrögð? Ímyndum okkur að Morgunblaðið birti viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur skömmtunarstjóra R-listans þar sem hún ræddi rækilega um fjölmörg stefnumál sín. Í lokin myndi blaðamaðurinn segja að Pétur Jónsson borgarfulltrúi hefði gefið kost á sér í tiltekið sæti á R-listanum sem Ingibjörg Sólrún skammtaði flokki hans og spyrja Ingibjörgu Sólrúnu hvort hún hefði ákveðið að kjósa hann. Ingibjörg myndi svara sem svo að hún hefði ekki ákveðið hvern hún kysi í það sæti og „gæti ekki gefið út neina ákveðna yfirlýsingu um stuðning við Pétur í það sæti að svo komnu máli“. Hvað ætli menn segðu ef Morgunblaðið setti sem risafyrirsögn yfir viðtalið: Styður ekki Pétur Jónsson. Og á forsíðu blaðsins yrði mynd af Ingibjörðu Sólrúnu og fyrirsögnin: Ingibjörg Sólrún styður ekki Pétur Jónsson! Ætli ritstjóri Dags-Tímans myndi ekki skrifa eins og einn leiðara um það mál í fyrsta lagi, öðru lagi og þriðja lagi.
Vef-Þjóðviljinn hefur til gamans ákveðið að láta reyna á spádómsgáfu sína í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík um helgina og í öðrum prófkjörum og kosningum sem framundan eru.
|