290. tbl. 1. árg.
Innflytjendur og framleiðendur bjórs auglýsa stíft þessa dagana. Það er svo sem engin nýlunda fyrir landann að sjá áfengisauglýsingar. Áfengis- og tóbaksauglýsingar hafa verið daglegt brauð á flestum íslenskum heimilum áratugum saman. Bara ekki í íslenskum fjölmiðlum. Að banninu hafa þó staðið margir þingmenn sem við ýmis tækifæri segjast vilja veg íslenskra fjölmiðla og móðurmálsins sem mestan. Þeir hafa ekki veigrað sér við að taka þessar tryggu auglýsingatekjur af íslensku fjölmiðlunum. Þetta hefur einnig skekkt samkeppnisstöðu íslenskra bjórframleiðenda gagnvart þeim erlendu þar sem erlendar bjórtegundir eru auglýstar í fjölmiðlum sem hingað berast. Nú hafa bjórsalar og fjölmiðlar ákveðið að nóg sé komið af heimskunni og auglýsa þrátt fyrir að auglýsingabann á áfengi eigi að heita í landinu. Þetta er gleðiefni. |