Þriðjudagur 14. október 1997

287. tbl. 1. árg.
Opnunartími félagsmiðstöðva var styttur fyrir nokkrum misserum úr 23:00 aðfararnætur virkra daga í 22:30. Breytingin var gerð vegna háværra krafna foreldra sem töldu opnunartímann vera helstu ástæðu þess hve „börn“ þeirra komu seint heim á kvöldin. Núverandi opnunartími virðist þó ekki hafa leyst vanda foreldra, því aftur heyrast háværar raddir meðal þeirra, sem í þetta sinn hljóta undirtektir starfsmanna félagsmiðstöðvanna, um að opnunartímann eigi að lengja aftur. Ástæðan er sú að unglingarnir koma engan veginn fyrr heim á kvöldin, heldur þvert á móti, safnast nú saman fyrir utan eftir lokun til að spjalla og koma einn seinna heim en áður. Til þess að leysa það vandamál vilja menn því lengja opnunartímann aftur, því engum virðist detta í hug að foreldrar hafi nokkra stjórn á eða um að segja hvenær afkvæmi þeirra koma heim á kvöldin.

Framsóknarmenn á Austurlandi skora nú á þingmenn að samþykkja að næstu jarðgöng verði á Austfjörðum. Við öðru var svo sem ekki að búast af framsóknarmönnum en þeir teldu ástæðu til að bora í fleiri fjöll þótt vitað sé að slíkt er óhagkvæmt fyrir landsmenn. Ekki kemur heldur á óvart að framsókn Austurlands teldi Austurland verðugast næst þegar sóa á skattfé.
En svo einkennilegt sem það er snýst umræðan um jarðgöng yfirleitt ekki um það hvort bora skuli heldur hvar. Það er ekki spurt hvort hagkvæmt sé að bora meira heldur er gengið út frá því sem vísu að halda verði áfram að hamast í fjöllunum. Það hefur m.a.s. komið fram í umræðum að fyrst borinn fíni er á landinu sé eins gott að nota hann. Þess vegna er nú svo komið að
eitt mikilvægasta einstaka verkefnið í ríkisfjármálum í dag er að koma árans bornum úr landi…

Halldór Blöndal samgönguráðherra er nú að undirbúa að eyða 160 milljónum í brúa- og vegagerð á Akureyri. Fjármunir í verkið eru vitaskuld ekki til og ekki er það á vegaáætlun, en nú skal pota því áfram enda farið að styttast
í kosningar. Halldór segir að útboð vegna verksins fari fram í haust og fyrstu bílarnir geti farið að keyra yfir brýrnar haustið 1998. Verkið er vafalaust hið brýnasta og getur ekki tengst því að þingmaðurinn Halldór Blöndal hyggur á glæsilega kosningu í Norðurlandskjördæmi eystra. Verkið hlýtur t.a.m. að vera brýnna en að vinda ofan af skuldsetningu þjóðarinnar, lækka skatta eða gera eitthvað í samgöngumálum höfuðborgarinnar. En þó höfuðborgarbúar séu þannig almennt ekki hrifnir af þessari
forgangsröðun og telji tíma kominn til að götur í borginni séu rýmkaðar er þó eitt afl sem hlýtur að gleðjast. R-listinn ætti að vera ánægður, enda hefur hann lagt sig fram um að hindra för almennings í furðulegri herferð gegn „einkabílismanum“.
 

Nýtt veftímarit Náttfari hefur litið tölvuskjásins ljós. Aðstandendur þess eru nokkrir frjálslyndir einstaklingar sem vilja sporna gegn því að staða þeirra verði sú sama og Náttfara forðum eða eins og segir í kynningu á Náttfara: „Nafnið Náttfari á sér kaldhæðnislegar rætur. Náttfari var fyrsti norræni maðurinn sem steig fæti á Ísland en telst ekki til
landnámsmanna vegna þess að hann var þræll. Við viljum vinna að því að leysa Ísland úr ánauð ríkisafskipta áður en við endum
í sömu sporum og Náttfari.“