Miðvikudagur 8. október 1997

281. tbl. 1. árg.
Það er áberandi í málflutningi veiðigjaldssinna að þeir telja framleiðslu þeim mun ómerkilegri sem hún er nær náttúruauðlindum. Þetta viðhorf er t.d. uppi í grein Þórólfs Matthíassonar í síðustu Fjármálatíðindum. Þessir sömu menn líta gjarnan svo á að landbúnaður og sjávarútvegur séu „óæðri“ framleiðslugreinar, en engin þjóð sé þjóð meðal þjóða nema hún byggi á hugbúnaðargerð eða einhverjum álíka greinum.
Í nýjasta hefti The Economist er fjallað um þessa útbreiddu skoðun og réttilega bent á að hún á tæpast stoð í raunveruleikanum. Það skiptir ekki öllu máli hvort land byggir á landbúnaði eða þjónustugreinum, aðeins svo lengi sem viðskiptafrelsi sé haft í heiðri. Chile er ágætt dæmi um þetta. Þegar oki viðskiptahafta var létt af landinu árið 1976, minnkaði hlutur iðnaðar. Árið 1973 var iðnaður um 27% af landframleiðslu Chilemanna, en árið 1995 var hlutur iðnaðar kominn niður í 16,8%. Hlutur landbúnaðar af landsframleiðslunni hefur hins vegar vaxið lítillega á sama tíma. Þessi minnkun í hlutfalli iðnaðar hefur hins vegar ekki leitt til minni hagvaxtar, -eins og margir hefðu spáð, heldur hefur hefur hann verið að meðaltali um 7,2% á ári síðan 1987. Þessi hagvöxtur hefur að miklu leyti byggst á auknum útflutningi landbúnaðarvara, -einkum vínberja, víns og síðast en ekki síst sjávarafurða. Það er engin kominn til með að segja að Chile muni vera landbúnaðarland um alla eilífð, en það er hins vegar nokkuð ljóst að það er hrein bábylja að halda því fram að lönd sem byggjast á „frumframleiðslu“ geti ekki búið við hagvöxt. Hér sannast enn og aftur að viðskiptafrelsi er undirstaða hagvaxtar, en ekki stjórnvaldsaðgerðir. Engu breytir þótt stjórnvöld séu vel meinandi og hafi fagra framtíðarsýn.