Þriðjudagur 16. september 1997

259. tbl. 1. árg.
Það var til fyrirmyndar hvernig tekið var á kjaradeilu…
kennara og sveitarfélaga í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkveldi. Þær kröfur sem kennarasamtökin hafa gert voru reiknaðar til hækkunar á tekjuskattshlutfallinu. Þetta mætti gera í fleiri tilvikum þegar þrýstihópar herja á ríkisvaldið. Þegar menn sjá hvað kröfurnar kosta er ekki víst að þær njóti sömu samúðar.

Þetta leiðir hugann að því hvað er sýnilegt í skattkerfinu…
og ríkisrekstrinum. Þannig má segja að þrátt fyrir að skylduáskrift að Ríkisútvarpinu sé fáránlegt fyrirbæri sé innheimtan á þessum skatti að mörgu leyti ákjósanleg. Í fyrsta lagi fá greiðendur sérstaka rukkun fyrir skattinum sem gerir hann sýnilegan en það magnar pirringinn yfir honum. Í öðru lagi sjá menn hvert skatturinn rennur sem í þessu tilviki hlýtur að gera hvern mann ga ga.

Nú hefur fjármálaráðherra boðað möguleika á tveggja vikna aukreitis fríi…
fyrir karlmenn sem starfa hjá hinu opinbera. Ekki þó fyrir þá alla heldur eingöngu þá sem gerast feður og á frí þetta að nýtast þeim til að kynnast afkvæmum sínum einhvern tímann á fyrstu átta vikum þeirra. Þetta kom fram hjá ráðherranum á nýyfirstöðnu þingi ungra Sjálfstæðismanna og sagði hann opinberrar tilkynningar um þetta að vænta innan fárra vikna. Ráðherrann hefur lýst þessu sem aðgerð sem ekki sé til þess að auka rétt karla heldur til þess að stuðla að jafnrétti milli kynjanna. Í umræðu um þetta er gjarnan vísað í „tilraunir“ þær sem Reykjavíkurborg hefur gert með að „bjóða“ nýbökuðum feðrum „fæðingarorlof“. Þær hafa víst gefist afskaplega vel. Maður spyr sig nú ósjálfrátt að því hvers konar maður myndi neita launuðu aukafríi. Þeir eru víst fáir en hræsnin í þessu öllu saman er að ekki gefst öllum þess konar frí. Í þessu sambandi finnst ráðherranum sem sagt engin ástæða til að jafnrétti ríki milli þeirra sem ekki gerast feður og þeirra sem það gera. Um hina síðarnefndu má með sanni segja að þeir gerist feður á kostnað ríkisins og væri þá ekki raunhæft að skattgreiðendur geri út starfsmann til að fylgjast með því að hinir nýbökuðu feður nýttu fríið eins og til væri ætlast, væru virkilega að kynnast króganum en ekki að nota fríið í eitthvað allt annað.