Fimmtudagur 21. ágúst 1997

233. tbl. 1. árg.

Þorvaldur Gylfason ritar grein í nýjustu…
Vísbendingu. Þar segir hann m.a.: „Skipulagsvandinn í bankakerfinu er einnig óleystur enn. Þar halda erindrekar stjórnmálaflokkanna áfram að ráða lögum og lofum, eins og þeim komi rösklega 60 milljarða króna útlánatap banka og sparisjóða undangengin ár ekki við. Núverandi viðskiptaráðherra reynir að vísu að fikra sig áfram í humáttina á eftir þeim sem hafa beitt sér fyrir umbótum í bankamálum. Það er virðingarvert. Þess sjást þó ennþá engin merki, að stjórnmálamennirnir hyggist hætta að raða sjálfum sér og hverjir öðrum í bankastjórnir og bankaráð með gamla laginu. Þvert á móti virðast þeir nú gera sig líklega til nýrra landvinninga með því að leggja undir sig fyrirtæki sem hafa hingað til fengið að lúta forustu hæfra kunnáttumanna. Þetta á t.d. við um Landsvirkjun, svo sem komið hefur fram í fréttum. Það verður fróðlegt að fylgjast með því máli.“
Það er hárrétt sem Þorvaldur segir um stjórnmálaflokkana og bankakerfið. Hins vegar er það full mikil bjartsýni af hans hálfu að halda að með því að fá pólitískt skipaða sérfræðinga eða „kunnáttumenn“ til starfa í ríkisfyrirtækjunum sé vandinn leystur. Aðalvandinn liggur í eignarhaldinu. Pólitískt skipaðir sérfræðingar og „kunnáttumenn“ fara ekki betur með annarra fé en eigið – ekki frekar en aðrir. Menn misnota ekki stöðu sína í ríkisfyrirtækjum af vankunnáttu heldur af því að skattgreiðendur borga brúsann. Það er jafnvel verra fyrir skattgreiðendur að geta ekki refsað mönnum í kosningum fyrir slælega frammistöðu sem er þó hægt með stjórnmálamennina. „Kunnáttumennirnir“ eru hins vegar ósnertanlegir. Það er t.d. lítil huggun fyrir skattgreiðendur að æviráðinn prófessor við ríkisskóla sé „kunnáttumaður“ ef hann notar hverja vinnustund til að leggja til nýja skatta sem merkilegt nokk eiga að renna til ríkisskólans. Þess vegna er nauðsynlegt að einkavæða ríkisbankana – og ríkisskólana.

Flest umhverfisvandamál eiga það sammerkt að það sem er mengað…
er án eiganda sem gætir þess. Loftmengun hefur lengi verið vandamál í ýmsum borgum heims. Enda er andrúmsloftið almenningur eða sameign og því enginn sem gætir þess. Vegna nýrra aðferða við vinnslu og bruna eldsneytis og nýrra hreinsunaraðferða á útblæstri hefur þó dregið úr loftmengun í Bandaríkjunum undanfarin 20-30 ár. Eldsneytis-, bíla- og vélaframleiðendur keppast við að bæta vörur sínar og gera þær hagkvæmari fyrir neytendur. Til dæmis má nefna að á árunum 1986 til 1995 fjölgaði Bandaríkjamönnum um 28% og farartæki juku akstursvegalengd sína um 116%. Þrátt fyrir það hefur dregið mjög úr loftmengun í Bandaríkjunum á sama tíma eða að meðaltali um 30%. Bandaríska umhverfisverndarstofnunin (EPA) gefur út tölur yfir þróun útblásturs og loftmengunar. Í nýjasta tölublaði tímaritsins Reason er eftirfarandi eftirfarandi tafla yfir breytingar á loftmengun birt en tölurnar eru fengnar frá EPA:

Loftmengun og útblástur 1986-1995 Minnkun á styrk Minnkun á útblæstri
Kolmónoxíð 37% 16%
Blý 78% 32%
Níturoxíð 14% 3%
Óson 6% (1)
Svifagnir undir 10mícron (PM10) 22% 17%
Brennisteinsdíoxíð 37% 18%
Rokgjörn lífræn efni (2) 9%

(1) Lítið af ósoni er beinlínis blásið út í andrúmsloftið heldur myndast það vegna annars útblásturs.
(2) Rokgjörn lífræn efni hvarfast mjög fljótt í andrúmsloftinu og því er styrkur þeirra ekki mældur.