Mánudagur 11. ágúst 1997

223. tbl. 1. árg.

Þeir sem sækja bari í miðborg Reykjavíkur…
og víðar um landið eru sennilega flestir sammála um verðlag á áfengum drykkjum sé hátt. Bjórglas kostar yfirleitt 550 – 600 krónur þótt verðlagning eigi að heita frjáls þótt hún sé það auðvitað ekki vegna mikillar skattlagningar. Ekki frekar en á eldsneyti. Engum hefur dottið í hug að saka hina mörg hundruð bari um land allt um verðsamráð þótt Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV, hafi haldið því fram í leiðara í síðustu viku að það væri „tölfræðilega útilokað“ fyrir þrjú olíufélög að hafa sama verð án þess að hafa samráð um það. Hvað segir hann tugi eða hundruð vínbara sem allir selja bjórglas á 550 krónur? Hvílík tilviljun?
Á börunum gengur þjónustufólk milli borða og tekur niður pantanir. Það fer svo og sækir drykkina og kemur ofast að vörmu spori með veigarnar og tilkynnir hvað þær kosta. Langflestir kúnnarnir rétta fram greiðslukort þannig að þjónustufólkið þarf að fara aðra ferð til að renna kortunum í greiðsluvélar. Það má vafalaust spara nokkrar krónur með því að gera út um pantanir, afhendingu brjóstbirtunnar og greiðslur í sömu ferðinni. Þannig má vafalaust bæta þjónustuna eða lækka verðið með því að fækka þjónustufólki.

Í DV nú um helgina var viðtal við Jón Kristjánsson…
prófessor í umhverfistækni við háskóla í Delft í Hollandi. Margt af því sem Jón segir í þessu viðtali er umhugsunarvert. T.d. hvað varðar einangrun íslenskra húsa. Annað vekur furðu. Hann heldur því t.d. fram að olíubirgðir heimsins stefni í þrot. Fyrir fimmtíu árum voru vinnanlegar birgðir olíu taldar duga í nokkra áratugi. Nú fimmtíu árum síðar eru enn til vinnanlegar birgðir til nokkurra áratuga. Og það sem er enn veigameiri vísbending um að olía eigi eftir að duga okkur þar til aðrir ódýrari orkugjafar leysa hana af hólmi, er verðið. Það hefur ekki hækkað á þessum fimmtíu árum. Ef að við værum að klára eitthvað sem við þurfum nauðsynlega að nota myndi verðið auðvitað hækka.

Stundum mætti ætla að besta leiðin…
til að koma einhverju fyrir kattarnef sé að ríkið styrki það. Þannig hefur t.d. farið fyrir íslenskum landbúnaði, samvinnuhreyfingunni, málgögnum stjórnmálaflokkanna og evrópskri kvikmyndagerð svo fátt eitt sé talið. Þetta ættu þeir sem nú streyma í ráðuneytin til að tryggja sér hlut í fjárlögum næsta árs að hafa í huga. Það kann að vera að ríkisstyrkir séu góðir fyrir viðkomandi í fyrstu en svo verða þeir vanabindandi og hafa slævandi áhrif.
Hefur því virkilega engum dottið í hug að setja ríkisstyrkina á bannlistann með hinu dópinu?