Helgarsprokið 3. ágúst 1997

215. tbl. 1. árg.

Pizzastaðir bjóða flestir það sem þeir kalla…
fría heimsendingu. Allir vita þó að kaupandinn greiðir fyrir aksturinn, hann er bara innifalinn í verði pizzunnar. Staðirnir gætu allt eins auglýst fríar pizzur en rukkað hressilega fyrir aksturinn. Það væri raunar gaman að vita hve stór hluti pizzuverðsins fer í aksturinn. Það er viðbúið að það geti verið nokkur stór sneið. Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku kom fram að skattar af bifreiðum á þessu ári stefna í 24 milljarða króna. Það eru um 160 þúsund krónur á hvern bíl! Ríkisstjórnin, með fjármálaráðherra í broddi fylkingar, telur hins vegar ekki nægilega níðst á bíleigendum og hækkaði skatta á eldsneyti í síðustu viku. Hvorki heyrðist hósti né stuna frá Neytendasamtökunum að því tilefni. Neytendasamtökin virðast oft missa málið þegar ríkisvaldið á í hlut enda eru þau háð ríkinu um fjárframlög. Það má hins vegar búast við því að Neytendasamtökin láti til sín taka ef pizzastaðir hækka verð á næstunni þótt þá hækkun megi skýra með auknum kostnaði við heimsendingar vegna þessarar skattahækkunar á eldsneyti!