Mánudagur 21. júlí 1997

202. tbl. 1. árg.

Stjórnandi eins stærsta ráðgjafarfyrirtækis Evrópu, Roland Berger,…
var nýverið í viðtali við tímaritið Focus um fyrirtækjaumhverfið í Þýskalandi og sagði þar m.a. : „Borgarinn er orðinn svo háður velferðarríkinu að hann er eins og dópisti. Hann er ekki lengur reiðubúinn til að bera ábyrgð á gjörðum sínum en lætur ríkinu það þess í stað eftir, og stjórnmálamennirnir eru ánægðir með þetta því það færir þeim völd.“ Berger ber því næst saman aðstæður í Þýskalandi og Bandaríkjunum: „Vilji BMW setja upp lakkverksmiðju hér í Þýskalandi tekur tvö ár að fá leyfi fyrir henni. Hvers vegna? Vegna þess að opinberu starfsmennirnir sem gefa út leyfið eiga yfir höfði sér fangelsisdóm ef verksmiðjan springur. Í Bandaríkjunum fær BMW leyfið á tveimur vikum, en stjórnendur fyrirtækisins bera ábyrgðina. Við þurfum sem sagt að einkavæða áhættuna ef við viljum hraða atvinnusköpun.“ Þessi orð fyrirtækjaráðgjafans eru umhugsunarverð fyrir okkur Íslendinga, enda er hætt við að hér á landi tæki það hið opinbera nær tveimur árum en tveimur vikum að samþykkja nýja verksmiðju af því tagi sem Berger nefnir, ef marka má aðrar stórframkvæmdir.

Þverun Gilsfjarðar er nú langt komin og nú ná fyllingarnar…
að sunnan- og norðanverðu saman úti á miðjum firðinum. Framkvæmdirnar munu kosta a.m.k.um 700 milljónir króna en stytta leiðina vestur aðeins um 17 kílómetra. Þessi framkvæmd er enn ein staðfesting á gróflegri misnotkun vegafjár landsmanna. Í krafti rangláts atkvæðavægis er vegafé notað til stórframkvæmda úti á landi í stað arðbærra framkvæmda á suðvesturhorninu þar sem meginhluti landsmanna býr og slysahætta er sannanlega fyrir hendi vegna þungrar umferðar. Eina leiðin til að koma í veg fyrir að fé til vegamála sé misnotað með þessum hætti er auðvitað að ríkið hætti að skipta sér af vegagerð og aflétti um leið sköttum af bílum, eldsneyti og öðrum þáttum í rekstri bíls.