Í DV í fyrradag er rifjað upp hið svonefnda lekamál…
úr Landsbankanum. Málið snérist um upplýsingar til Morgunblaðsins um bága fjárhagsstöðu SÍS sem áttu að hafa komið úr Landsbankanum, aðalviðskiptabanka SÍS. Rannsóknarlögreglan reyndi að finna lekann úr Landsbankanum en tókst ekki. Af einhverjum ástæðum virðast menn hafa bitið það í sig að lekinn kæmi úr bankanum en ekki SÍS.
Fréttaflutningur hefur aldrei verið sterkasta hlið Alþýðublaðsins…
svo vægt sé til orða tekið. Þrátt fyrir það hefur ástand blaðsins verið óvenju dapurt upp á síðkastið. Líður blaðið sérstaklega fyrir lítt dulda þrá ritstjóra þess til að komast aftur í ráðherrastól. Eins og áður hefur verið rakið hér í blaðinu hefur ritstjórinn þjáði m.a. birt ráðherralista næstu ríkisstjórnar, þar sem hann telur sjálfan sig munu eiga sæti. Nú einkenna blaðið hins vegar daglegar árásir á utanríkisráðherra Íslands og störf hans. Hin augljósu skilaboð sem felast í árásum Alþýðublaðsins eru ekki þau að eitthvað sé athugavert við störf ráðherra, enda eru menn almennt sammála um að núverandi utanríkisráðherra hafi staðið sig ágætlega í því starfi. Nei, Alþýðublaðið heldur því fram að utanríkisráðherra sé í slæmum félagsskap. Bæði forsætisráðherra og forseti lýðveldisins stundi þá iðju að svipta hann forsvari síns málaflokks og ræna hann skrautfjöðrum fyrir unnin verk. Það er hins vegar álitamál hvort sé aumkunarverðara, þessi augljósa og vonlausa tilraun til að ala á úlfhúð með samstarfsflokkum í núverandi ríkisstjórn, eða árásir blaðsins á forseta lýðveldisins.
Að vísu hefur hinn sjóaði atvinnustjórnmálamaður, Ólafur Grímsson, átt í ákveðnum örðugleikum með að aðlaga sig nýju starfi, þar sem krafist er ákveðins pólitísks hlutleysis í samræmi við valdaleysi embættisins. Hins vegar eru endurteknar ábendingar Alþýðublaðsins um óhófleg afskipti forsetans af utanríkisstefnu sitjandi ríkisstjórnar bæði vandræðalegar og óþarfar. Forsprökkum örblaðs jafnaðarmanna væri nær að gefa nýjum forseta svigrúm til að átta sig á þeim takmörkum sem forsetaembættinu fylgja en að reyna að nota sér mistök forsetans.