Batnandi manni er best að lifa…
segir máltækið. Það á vel við um leiðarahöfund Morgunblaðsins, en blaðið hefur hefur á síðustu misserum margsinnis tekið afstöðu með forræðishyggju og ríkisafskiptum, nú síðast þegar blaðið lagðist á sveif með vinstri mönnum á Alþingi, sem skömmu fyrir þinglok tókst að svipta alla Íslendinga, á tilteknu aldursskeiði, sjálfræði sínu. Nú bregður hins vegar svo við, að í leiðara Morgunblaðsins í gær er tekin afstaða með því að tekin verði upp skólagjöld á Íslandi. Gefum Mbl. orðið: Skólagjöld hafa lengi verið við lýði víða á Vesturlöndum en þó fyrst og fremst í Bandaríkjunum og Bretlandi. Í Þýzkalandi t.d. hafa háskólar verið opnir eins og hér og aðgangur að þeim ekki kostað neitt. Afleiðingin er sú, að algert öngþveiti ríkir nú í háskólum þar í landi. Skólar hér á landi stefna í sömu átt að óbreyttu og þessi þróun er raunar löngu hafin í Háskóla Íslands. Þess vegna má gera ráð fyrir, að á næstu árum skapist smátt og smátt samstaða um að taka upp skólagjöld, a.m.k. á háskólastigi. Er óskandi að Morgunblaðið sé með þessari afstöðu sinni að færa sig aftur í fylkingarbrjóst þeirra, sem standa vörð um einstaklingsfrelsi og takmörkuð ríkisafskipti. Ekki veitir af.
Helgarsprokið 6. júlí 1997
187. tbl. 1. árg.