Kristinn Sigmundsson, söngvari ritaði grein í Morgunblaðið 26. júní…
þar sem hann hélt því fram að Sinfóníuhljómsveit Íslands stæðist samanburð við bestu hljómsveitir heims, að slæmt væri að skera niður fjárframlög ríkisins til hennar og án sinfóníuhljómsveitar gætu þjóðir ekki talist menningarþjóðir.
Jón Egilsson, stúdent, svaraði grein Kristins í Morgunblaðinu í gær. Í grein Jóns segir: Með sömu rökum mætti halda því fram að ríkið ætti að reka rokkhljómsveit: Rokkhljómsveit ríkisins. Hvernig líst fólki á það? Ég efast ekki um að ef nægir fjármunir fengjust úr ríkiskassanum, til þess að rokkarar gætu einbeitt sér að list sinni, myndi hljómsveitinn verða á heimsmælikvarða. Alveg eins og Kristinn heldur því fram að þjóð án ríkisrekinnar sinfóníuhljómsveitar, sé ekki menningarþjóð, þá gæti ég haldið því sama fram um þjóð án ríkisrekinnar rokkhljómsveitar. Á þessu er enginn eðlismunur.
Málið snýst auðvitað um það að ríkisvaldið á alls ekki að skipta sér af hljómsveitum úti í bæ. Hvorki sinfóníu- né rokkhljómsveitum. Þetta er utan hlutverks ríkisvaldsins. Þeir aðilar, sem áhuga hafa á sinfóníuhljómsveitum, hafa frelsi til að stofna með sér félag um það áhugamál sitt. Ef þeir hafa vilja og fjármagn til að stofna og reka sinfóníuhljómsveit, þá gera þeir það bara. Ég persónulega vil fá að vera í friði fyrir slíkum rekstri enda kemur hann mér ekki við, svo lengi sem ekki er krafist fjárframlaga frá ríkinu. Á meðan ríkið tekur þátt í rekstri sinfóníuhljómsveitar er ég órétti beittur.
VEFÞJÓÐVILJINN hefur fengið samkeppni um lesendur hér á Netinu. Xnet hefur hafið útgáfu nýs dagblaðs Xnet Vefsins. Fyrsta tölublaðið kom út í dag. Við fyrstu skoðun virðist um áhugavert blað að ræða þótt efnistök séu allt önnur en hér á VEFÞJÓÐVILJANUM. Annað veftímarit, DECODE, virðist hins vegar hafa lagt upp laupana en það mun hafa verið styrkt af opinberum aðilum svo sem borgarstjórn Reykjavíkur. VEFÞJÓÐVILJINN sendir útgefendum Xnet Vefsins árnaðaróskir með nýju útgáfuna.