Mánudagur 30. júní 1997

181. tbl. 1. árg.

Enn ein fréttin um styrki til menningarstarfsemi…
birtist í fjölmiðlum fyrir skömmu. Ekki voru það þó kunnugleg nöfn atvinnustyrkþega sem að þessu sinni tóku við fé skattborgara heldur var hér um að ræða kornungt, flestir ef ekki allir undir þrítugt, athafnafólk sem myndar fjöllistahópinn Gus Gus. Eftir því sem menn lesa um í blöðum hefur Gus Gus vegnað svo vel að síðast þegar heyrðist til þeirra hér á landi var það með því fororði að það væri í síðasta sinn er menn fengju tækifæri til að fylgjast með þeim á Fróni. Útlöndin biðu nefnilega. Þrátt fyrir gífurlega velgengni sáu Gus Gus menn ástæðu til að biðja útsvarsgreiðendur í Reykjavík um þrjár milljónir króna. Borgarstjórn tók vel í þessa málaleitan (frá bæjardyrum Gus Gus séð) og úthlutaði sveitinni einni milljón króna úr skuldsettum borgarsjóði. Enda kosningar á næsta ári og ekki vera að hafa svona spilara með sér í þeim slag – eða a.m.k. ekki á móti sér.