Helgarsprokið 29. júní 1997

180. tbl. 1. árg.

Eins og menn muna voru ýmsar vafasamar gjörðir Ólafs Ragnars Grímssonar…
rifjaðar upp þegar hann bauð sig fram til forseta á síðasta ári. Ýmislegt hefur bæst við síðan og í grein um Guðrúnu K. Þorbergsdóttur í nýjasta tölublaði Mannlífs dregur Róbart Marshall, höfundur greinarinnar, fram mál sem var flestum gleymt. Í greininni er gefið í skyn að Ólafur hafi látið rjúfa innsigli skattyfirvalda á prjónabúð þeirri sem Guðrún rak daginn eftir að skattyfirvöld létu innsigla búðina. Eðlilegt hefði verið að Róbert kannaði sannleiksgildi þessarar sögu en sennilega trúir hann öllu þegar forsetahjónin eru annars vegar.

Fingraför Össurar Skarphéðinssonar á úrsögn Hrafns Jökulssonar…
úr Alþýðuflokknum eru greinileg. Össuri, sem kom úr Alþýðubandalaginu á sínum tíma þar sem hann þoldi ekki flokkinn undir forystu Ólafs Ragnar Grímssonar, var tekið með kostum og kynjum af alþýðuflokksfólki og var orðinn ráðherra fyrr en varði. Var hann m.a. tekinn fram fyrir Rannveigu Guðmundsdóttur, sem hafði stritað til metorða í flokknum árum saman. Nú launar Össur Alþýðuflokknum greiðviknina með því að efna til uppþota af því tagi er Hrafn sagði sig úr flokknum. Er augljóst að liðið sem studdi Guðmund Árna til formennsku á flokksþingi Alþýðuflokksins ætlar ekki að una niðurstöðunni.

Það sem þykir einkum lúalegt við úrsögn Hrafns…
er tímasetningin en Sighvatur Björgvinsson, formaður flokksins, var staddur erlendis, nánar tiltekið á eyju í Miðjarðarhafinu. Össur og Hrafn virðast ekki hafa þorað að láta til skarar skríða gegn formanninum meðan hann var á landinu.