Dagblaðið Dagur Tíminn birti þann 24. júní mikla forsíðufrétt um…
meintan stuðning Reykvíkinga við R-listann. Þar kemur fram að óháður aðili hafi gert könnun fyrir listann á fylgi fylkinganna, sem takast á í borgarmálunum, og að niðurstaðan hafi verið að 38% styddu R-listann, 32% Sjálfstæðisflokkinn og 30% svarenda hafi verið óákveðnir eða neitað að svara. Með því að skipta óákveðna fylginu upp á milli fylkinganna fengi R-listinn 53% en Sjálfstæðisflokkurinn 47%, sem er um það bil það sama og í kosningunum 1994.
Þessar niðurstöður vekja athygli. Í fyrsta lagi er þess að geta,…
að aðrar kannanir, sem gerðar hafa verið að undanförnu, benda til gagnstæðrar niðurstöðu. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið heldur meira fylgi en R-listinn. Í öðru lagi vekur það athygli að könnunin er gerð fyrir R-listann af óháðum aðila, sem DT treystir sér ekki til að nafngreina. Ekki er heldur getið um hvernig spurningar voru orðaðar, en slíkt getur skipt verulegu máli, eins og kunnugt er. Hér er um mjög óvenjulega framsetningu að ræða. Þegar trúverðugleiki skoðanakannana er metinn skiptir mjög miklu máli hver framkvæmir könnunina, enda eru ýmis fyrirtæki og stofnanir sem á löngum tíma hafa áunnið sér traust vegna faglegra vinnubragða á þessu sviði. Aðrir aðilar hafa tekið að sér svona kannanir, en ekki haldið sér lengi á floti, þar sem þeir hafa ekki notið trausts eða verið teknir alvarlega. Í þessu tilviki er nafni framkvæmdaraðila skoðanakönnunar haldið leyndu þegar niðurstöðurnar eru kynntar með uppslætti á forsíðu opinbers dagblaðs, og vekur það því rökstuddan grun um að ekki hafi verið staðið faglega að verki, annað hvort hjá viðkomandi aðila – eða dagblaðinu, sem birti fréttina.
Sjálfstæðismenn í borginni…
þurfa hins vegar að taka öll teikn af þessu tagi alvarlega. Jafnvel þótt þessi tiltekna könnun hafi verið fúsk, er því ekki að eyna, að forystu Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum hefur ekki tekist á sannfærandi hátt að ná málefnalegu og pólitísku frumkvæði í
opinberri umræðu um borgarmálin. R-listinn hefur komist upp með ítrekaðar hækkanir skatta og annarra gjalda, aukið skuldir og framkvæmt margvísleg asnastrik, t.d. í skipulagsmálum, án þess að mótmæli sjálfstæðismanna og málefnaleg gagnrýni hafi náð eyrum hins almenna kjósanda nægilega vel. Þetta gefur sjálfstæðismönnum í borginni tilefni til að endurskoða málflutning sinn, áherslur og framsetningu, enda er löngu komið á daginn, að R-listinn mun ekki færa þeim sigurinn upp í hendurnar.