Fimmtudagur 26. júní 1997

177. tbl. 1. árg.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest þá ákvörðun samkeppnisráðs…
að setja ströng skilyrði um það hverjir megi sitja í stjórn Flugfélags Íslands hf. Á hinn bóginn var numið úr gildi skilyrði samkeppnisráðs varðandi samstarf Flugfélagsins við Flugleiðir um vildarkerfi, farseðlaskipti og skilyrði um hlunnindi starfsmanna. Þessi niðurstaða veldur forráðamönnum Flugleiða miklum vonbrigðum og er til athugunar að fara með málið til dómstóla.Ekki er víst að nokkuð þýði fyrir Flugleiðamenn að fara dómstólaleiðina. Niðurstaðan gæti orðið sú að þeir hlíti úrskurðinum í stað þess að fara út í langvinn og kostnaðarsöm málaferli. Ríkar heimildir eru nefnilega í lögum fyrir þeim kvöðum sem Samkeppnisstofnun keppist nú við að leggja á atvinnufyrirtækin í landinu. Stjórnendur þeirra eiga fullt í fangi með að byggja upp fyrirtækin og halda þeim gangandi í alþjóðlegri samkeppni þótt slíkt málavafstur við ríkisrekna skriffinna bætist ekki við.


Þótt samkeppnislöggjöfin sé ung að árum hefur hún nú sannað…
að hún opnar nýjar leiðir fyrir stjórnmála- og embættismenn til að hafa afskipti af atvinnulífinu. Þessi afskipti geta ekki síður verið óeðlileg en þegar ríkið rekur fyrirtækin sjálft. Í augum útlendinga er Ísland allt að því hlægilega lítill markaður en með auknu frelsi í viðskiptum hefur grimm samkeppni þróast í þeim atvinnugreinum, sem bera á annað borð nokkur fyrirtæki. Nokkrum sinnum hefur verið grimm samkeppni milli nokkurra innlendra flugfélaga, dæmin um Loftleiðir, Arnarflug og nú síðast Atlanta, sanna það. Samkeppnin erlendis frá verður hins vegar æ harðari og ekki sjálfgefið að svo öflugur flugrekstur, sem Flugleiðir hafa staðið fyrir, verði til frambúðar í höndum innlends fyrirtækis. Á slíkum örmarkaði, sem Ísland er, verða alltaf til markaðsráðandi fyrirtæki á afmörkuðum sviðum. Nú þegar eiga Flugleiðir þó í höggi við umtalsverða samkeppni erlendis frá og bent hefur verið á að fargjöld hafi þegar lækkað vegna þess. Slíkt er að sjálfsögðu af hinu góða en við slíkar aðstæður ættu stjórnmálamenn ekki að hefta starfsemi fyrirtækja og auka vald embættismanna yfir starfsemi þeirra. Frekar ætti að gefa fyrirtækjunum lausan tauminn og leyfa atorkusömum stjórnendum að njóta sín í því samkeppnisumhverfi sem hér er að verða til.

Flestir hljóta að sjá fáránleika þess að ríkisstofnun úti í bæ skuli skipta sér af…
samstarfi Flugleiða og Flugfélags Íslands um stjórnarsetu, vildarkerfi, farseðlaskipti, hlunnindakerfi starfsmanna og fjalla um áætlunarleiðir og ferðatíðni. Allir vita að með því að skipta Flugleiðum í tvö sjálfstæð félög var ætlunin að blása nýju lífi í innanlandsflugið, sem hefur ekki skilað fullnægjandi arði á síðastliðnum árum. Stofnun Flugfélags Íslands er metnaðarfull tilraun til að láta innanlandsflugið standa undir sér í stað þess að niðurgreiða það með hagnaði af millilandaflugi. Við slíkar aðstæður er ómetanlegt fyrir hið nýja félag að hafa áfram skjól af „stóra bróður“ þ.e. Flugleiðum, með gagnkvæmu samstarfi á mörgum sviðum. Ekki verður t.d. séð hvaða hætta fylgir því að Flugfélagið fái að notfæra sér þjónustu hæfra stjórnarmanna, jafnvel þótt þeir starfi jafnframt fyrir Flugleiðir enda eru bæði félögin að miklu leyti í eigu sömu hluthafa.Verði framhald á þessu furðulega máli hljóta eigendur Flugleiða að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að sameina rekstur innanlandsflugsins og millilandaflugsins að nýju og hefði þá betur verið heima setið en af stað farið. Þessi atburðarás verður þó vonandi til þess að stjórnvöld endurskoði samkeppnislöggjöfina og rýmki ákvæði hennar verulega til hagræðis fyrir íslenskt atvinnulíf.