Birgir Ármannsson, lögfræðingur, ritaði grein í DV á mánudaginn…
þar sem hann gerir að umtalsefni hin miklu umsvif ríkisins í atvinnurekstri þrátt fyrir að bæði rök og reynsla ættu að leiða að annarri niðurstöðu. Í greininni segir Birgir m.a.: Á undanförnum árum hefur þróunin verið sú, bæði hér á landi og erlendis, að opinberir aðilar hafa dregið sig út úr rekstri, sem talið hefur verið að einkaaðilar gætu sinnt betur. Gamlar kreddur um að ríkið ætti að eiga framleiðslutækin í þjóðfélaginu hafa verið á hröðu undanhaldi og reynslan hefur sýnt að allur almennur atvinnurekstur er betur kominn hjá einkafyrirtækjum en í höndum stjórnmála- og embættismanna.
Hér á landi hafa ákveðin skref verið stigin í þessa átt. Samt er staðan enn sú, að ríkið er til dæmis einkaeigandi hlutafjár í Áburðarverksmiðjunni og Sementsverksmiðjunni og stór hluthafi í nokkrum öðrum verksmiðjum. Það er jafnframt umsvifamikið í verslunarrekstri, enda er öðrum en ríkinu óheimilt að reka áfengisverslanir og mikil verslun með ýmsar vörutegundir, t.d. snyrtivörur og rafmagnsvörur, fer fram á vegum Fríhafnarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem er alfarið í eigu ríkisins. Þá er ekki síður ástæða til að benda á, að ríkið og stofnanir í ríkiseigu hafa yfirgnæfandi hlutdeild á fjármálamarkaði. Loks er rétt að nefna, að ríkið er enn eini eigandi Pósts og síma hf., sem er ýmist einkaleyfishafi eða markaðsráðandi aðili á flestum sviðum fjarskipta og póstþjónustu í landinu.
Nú í júní eru liðin 10 ár frá hinni frægu Brandenburgarræðu Ronalds Reagans…
þar sem hann skoraði á Gorbachev að létta oki félagshyggjunnar af íbúum Austur-Evrópu og Sovétríkjanna. Tveimur árum síðar hrundu múrarnir eins og spilaborg undan einhverri mestu frelsisöldu sem sögur fara af. Það var varla tilviljun að þetta gerðist við lok valdaferils einhverra merkustu stjórnmálamanna Vesturlanda, þeirra Margrétar Thatchers og Ronalds Reagans. En þau sýndu fulltrúum félagshyggjunnar ætíð í tvo heimana í bókstaflegri merkingu.
Í ræðu sinni sagði Reagan m.a.:General Secretary Gorbachev, if you seek peace, if you seek prosperity for the Soviet Union and Eastern Europe, if you seek liberalization: Come here to this gate! Mr. Gorbachev, open this gate! Mr. Gorbachev, tear down this wall!