Þriðjudagur 24. júní 1997

175. tbl. 1. árg.

Verkfall er hafið hjá ófaglærðu verkafólki í Sjúkrahúsi Húsavíkur…
en alls leggja 65 manns niður vinnu, þ.e. fólk í ræstingum, eldhúsi, þvottahúsi o.s. frv. Með verkfallinu skapast kærkomið tækifæri fyrir heilbrigðis- og fjármálaráðherra til að endurmeta starfsemi sjúkrahússins og leggja það niður ef ástæða er til. Það er nefnilega staðreynd að sjúkrahúsum er allt of víða haldið í rekstri á landsbyggðinni en betra væri fyrir alla aðila að hafa sjúkrahúsin færri en fullkomnari. Þrátt fyrir að um helmingur ríkisútgjalda fari til að reka heilbrigðis- og tryggingakerfið er við alvarlegan fjárhagsvanda að etja á flestum spítölum. Sú stefna hefur verið ríkjandi að byggja fokdýr sjúkrahús sem víðast og halda þeim í rekstri þrátt fyrir að allar hagkvæmnisathuganir bendi til að mörg þeirra séu illa nýtt. Auk þess eru þau vanbúin tækjum og illa gengur að manna þau læknum og hjúkrunarfræðingum. Í hvert sinn sem sparnaðartillögur koma fram rísa þingmenn viðkomandi kjördæmis upp á afturlappirnar og berjast gegn þeim með oddi og egg ásamt þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Það er því e.t.v. ekki nema skiljanlegt þótt heilbrigðisráðherrar hafi gefist upp við að skera niður í rekstri sjúkrahúsa úti á landi og beiti niðurskurðarhnífnum á hátæknispítölunum í Reykjavík, sem allir landsmenn, óháð búsetu, nota. Vonandi notar heilbrigðisráðherra tækifærið núna og hristir upp í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni. Sum mætti leggja niður, önnur mætti nota undir slysavarðstofur og öldrunardeildir. Mestu máli skiptir að spara ríkinu fé og það sem sparast mætti annars vegar nota til að efla stóru sjúkrahúsin á Akureyri og í Reykjavík og hins vegar til að lækka skatta.

Kaup Alþýðubandalagsins á 40% hlutafjár í Helgarpóstinum eru athyglisverð…
en koma varla á óvart. Lengi vel héldu menn að Þjóðviljinn hefði ekki getað lifað án Alþýðubandalagsins, þ.e. blaðstyrkjarins, en nú hefur komið í ljós að það er Alþýðubandalagið sem getur ekki lifað án þess að eiga hlut í sorpblaði og helst tveimur. Allir muna eftir hinni lágkúrulegu sorpblaðamennsku Þjóðviljans sáluga. Eftir andlát hans hófu allaballar útgáfu Vikublaðsins sem var mjög í sama dúr. Það nægir hins vegar ekki og því hefur Alþýðubandalagið ákveðið að verja blaðastyrk sínum, sem kemur úr vösum skattgreiðenda, til kaups á hlutafé í öðru blaði. Af öllum þeim aragrúa blaða, sem út koma á Íslandi um þessar mundir, varð fyrir valinu eina sorpblaðið fyrir utan Vikublaðið, þ.e. Helgarpósturinn. Er það tilviljun?

Hvítt lygi er það kallað þegar menn segja allt…
nema það sem máli skiptir. Páll Vilhjálmsson, þá nýbakaður ritstjóri Helgarpóstsins, var að því spurður í útvarpsviðtali hvort ekki væri erfitt að fjármagna kaup á blaði eins og Helgarpóstinum. Jú, vissulega sagði Páll, en sagðist hafa herjað á vini og ættingja um fjárframlög. Ætli allir skattgreiðendur landsins, sem leggja Alþýðubandalaginu til blaðastyrk, séu vinir og ættingjar Helgarpóstsins-Páls?