Vinstri menn á Íslandi hafa nú um margra ára skeið…
misst svefn og matarlyst þegar þeir hugsa til þess sem þeir kalla kolkrabbann í íslensku atvinnulífi. Vilja þeir meina, að innbyrðis tengsl nokkurra stórra fyrirtækja hér á landi sé með þeim hætti, að þau ógni hagsmunum atvinnulífsins og almennings. Síðustu daga hafa komið fram í fjölmiðlum upplýsingar, sem benda til þess að á slúðurblaðamarkaðnum hér á landi ríki svonefnd fákeppni og rík tengsl séu milli þeirra blaða, sem þar keppa. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess, að forsvarsmenn og eigendur þessara blaða eru ekki digrir kapítalistar með pípuhatt og vindil, eins og margur kynni að halda, heldur alþýðuvinir úr Alþýðubandalaginu.
Samkvæmt ummælum formanns Alþýðubandalagsins,…
Margrétar Frímannsdóttur, er u.þ.b. 40% hlutur í Helgarpóstinum í eigu hlutafélagsins Tilsjár, sem aftur er alfarið í eigu Alþýðubandalagsins. Þetta hlutafélag er jafnframt útgáfufélag Vikublaðsins, opinbers málgagns Alþýðubandalagsins. Hér er því um að ræða veruleg tengsl milli þeirra tveggja blaða, sem gefin eru út vikulega í Reykjavík. Þessi tengsl þurfa að vísu ekki að koma á óvart, því skrif þessara tveggja blaða hafa orðið æ líkari á undanförnum misserum. Raunar eru núverandi stjórnendur Helgarpóstsins (og meðeigendur Alþýðubandalagsins í blaðinu) fyrrverandi forsvarsmenn Vikublaðsins. Það var því ekki við öðru búist, en að ritstjórnarstefna Helgarpóstsins yrði mótuð í anda sósíalisma, verkalýðs og þjóðfrelsis eins hjá Þjóðviljanum gamla. Það sem kemur hins vegar á óvart, er að upplýsingum um eignarhlut Alþýðubandalagsins í Helgarpóstinum hefur ekki aðeins verið haldið leyndum fyrir fjölmiðlum og almenningi, heldur er ljóst að margir af helstu forystumönnum flokksins hafa ekki haft hugmynd um þessi umsvif á fjölmiðlamarkaðnum. Verður ekki betur séð en að þetta mál hljóti að valda trúnaðarbresti innan forystusveitar flokksins, og verður líklega ekki til þess að efla sameiningarhug og bræðralagsanda á þeim bæ.
Það er svo kaldhæðni örlaganna fyrir Halldór Halldórsson…
og fleiri samsærispenna á Helgarpóstinum sem skrifað hafa reglulega um meint óeðlileg tengsl og hringamyndun á fjölmiðlamarkaðinum að Helgarpósturinn skuli ekki vera annað flokkssnepill og sannkallaður laumukommi.