Þriðjudagur 17. júní 1997

168. tbl. 1. árg.

Á undanförnum árum hefur það nokkuð tíðkast að óvígt fólk…
sé fengið til að tala yfir söfnuðum úr predikunarstólum í kirkjum landsins. Frá sjónarhóli þeirra sem ekki er alveg sama um það sem fram fer í kirkjum kann það að vera vafasöm þróun, en látum það liggja á milli hluta hér. Nú greina fréttir hins vegar frá því að við guðsþjónustu í Kópavogskirkju í dag muni Guðrún K. Þorbergsdóttir, betur þekkt sem Búbba, flytja stólræðu. Um hvað ætli hún tali? Trúna svona helst á manninn? Svo segir í tilkynningu frá sóknarnefnd kirkjunnar að núverandi forseti Íslands, betur þekktur sem Við Guðrún Katrín, kona mín og ég muni „taka þátt í hátíðarguðsþjónustu“ í kirkjunni. Það er óþolandi hvernig sóknarnefndir sums staðar á landinu hafa misnotað sér greiðvikni núverandi forseta. Ólafur Ragnar hefur lýst því ítrekað yfir opinberlega að hann sé „nokkuð sannfærður um að guð sé ekki til“ og það er ónotalegt að gera honum að taka þátt í tilbeiðslu á þeim sem hann er nokkuð sannfærður um að sé bara alls ekki til.