Mánudagur 16. júní 1997

167. tbl. 1. árg.

Ritstjórar málgagns kommúnistaflokks Norður-Kóreu…
hljóta að öfunda Össur Skarphéðinsson, ritstjóra Alþýðublaðsins. Össur hefur nefnilega einstakt lag á því að mæra leiðtoga sinn með skrúðmælgi og væmnum texta. Í vikunni var t.d. eftirfarandi rassasleikur á forsíðu Alþýðublaðsins undir mynd af öndum á Reykjavíkurtjörn: „Örlitlir andarungar í skjóli umhyggjusamra mæðra sinna eru sannkallað augnayndi á Tjörninni í miðborg Reykjavíkur, þar sem Ingibjörg Sólrún borgarstjóri rennir stundum vökulum móðuraugum yfir borgina, sem hefur blómstrað undir stjórn hennar, engu að síður en ungarnir litlu á Tjörninni í skjóli andamammanna.“

Össur birti svo lista yfir ráðherra í næstu ríkisstjórn Íslands…
sem skipuð verður félagshyggjufólki. Þar var hin vökula andamamma auðvitað forsætisráðherra og Össur sjálfur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, en núverandi formaður hans, Sighvatur Björgvinsson, settur í félagsmálaráðuneytið. Stórar myndir voru af öllum ráðherraefnunum þ.á.m. af Össuri en Össur er eini íslenski ritstjórinn sem birtir reglulega viðtöl við sjálfan sig og fallegar myndir með.

Gauti Bergþóruson Eggertsson, útskrifast hinn 17. júní, fyrstur manna…
með ágætiseinkunn, úr hagfræðiskor Háskóla Íslands. Í viðtali við Morgunblaðið í gær sagði Gauti: „Hagfræðin glímir við spurningar sem skipta máli. Ég fylli ekki hóp þeirra sem trúa því að okkur líði svona vel því að öðrum líði illa. Gróði eins þarf ekki að vera á kostnað annars. Ef til vill felst svarið að hluta til í rangri umgjörð efnahagslífsins í fátækari ríkjum og litlu athafnafrelsi.“